Eftir Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is
NÁNAST er uppselt í Jökulsárhlaupið sem hefst á hádegi á morgun. Í gær voru 164 keppendur skráðir og aðeins er pláss fyrir tíu hlaupara í viðbót en þeir geta aðeins fengið að keppa á lengsta leggnum sem boðið er upp á; 32,7 km langa leið frá Dettifossi að Ásbyrgi.
„Þetta er algjört met,“ sagði Þorsteinn Hymer, einn aðstandenda hlaupsins og var að vonum kátur með þátttökuna. Skipuleggjendur yrðu að takmarka fjöldann af hagnýtum ástæðum, m.a. vegna þess að sjálfboðaliðar yrðu í sumum tilfellum að bera vatn um langan veg á drykkjarstöðvar. „Kringum 200 er algjört hámark hjá okkur, sagði Þorsteinn en útilokaði þó ekki að hægt yrði að hleypa fleirum í hlaupið á næsta ári.
Miklum hlýindum er spá á Norðausturlandi um helgina. Slíkt veður hentar vel til sólbaða og hófsamrar áreynslu en ekki til langhlaupa. „Ég veit ekki hversu ánægðir hlaupararnir eru. Það er spáð hérna 20 gráðum og hægviðri. Þannig að það verður ansi heitt og það getur því verið erfitt að hlaupa,“ sagði Þorsteinn. Áhorfendur og starfsmenn myndu á hinn bóginn hafa það gott.
Um 600 manns voru á tjaldstæðinu í Ásbyrgi í gær og býst Þorsteinn við að töluvert fjölgi þar um helgina. Þar mun vera góð stemning og veðurspáin er frábær...nema fyrir hlaupara.
Í hnotskurn
» Í fyrsta Jökulsárhlaupinu, árið 2004, voru um 70 þátttakendur.» Boðið er upp á þrjár mislangar hlaupaleiðir. Frá Dettifossi að Ásbyrgi (32,7 km), frá Hólmatungum að Ásbyrgi (21,2 km) og frá Hljóðaklettum að Ásbyrgi (13,2 km).
» Utanvegahlaup njóta sívaxandi vinsælda og sem dæmi má nefna að tæplega 240 manns tóku þátt í Laugavegshlaupinu og rúmlega 90 í Vesturgötunni, milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.