Eyjahljómsveitin Dans á rósum var stofnuð árið 1993 og hefur gengið í gegnum nokkrar mannabreytingar en í dag skipa hljómsveitina Eyvindur Ingi Steinarsson, gítar og raddir, Helgi Óskar Víkingsson, trommur, Viktor Ragnarsson, bassi og raddir, Viðar...

Eyjahljómsveitin Dans á rósum var stofnuð árið 1993 og hefur gengið í gegnum nokkrar mannabreytingar en í dag skipa hljómsveitina Eyvindur Ingi Steinarsson, gítar og raddir, Helgi Óskar Víkingsson, trommur, Viktor Ragnarsson, bassi og raddir, Viðar Togga, verndari hljómsveitarinnar, og Þórarinn Ólason söngvari.

Alhliða ballhljómsveit

„Þessi tími í hljómsveitinni hefur verið fínn og við komum reglulega fram.Við erum ballhljómsveit sem spilar alhliða danstónlist og er markhópur okkar frá um 28 ára og upp úr. Mestmegnis spilum við lög annarra en höfum líka gefið út lög eins og Jamaica og Dansað á dekki svo og lagið Langar samt í þig eftir Örlyg Smára Eurovisionfara. Ég hef farið á þjóðhátíð síðan ég man eftir mér og þjóðhátíðarlögin eru í blóðinu á manni og eitthvað sem maður bara lærir,“ segir Þórarinn.

Samfleytt í sex ár

Þórarinn segir ennfremur að sér finnist alltaf gaman að lögunum hans Oddgeirs þó hann vilji ekki gera upp á milli þeirra. Nýrri lögin séu nýjabrum sem sé líka gott en það hafi helst breyst að þjóðhátíðarlögin séu nú til dags orðin mun meiri markaðssetning fyrir hátíðina en áður tíðkaðist og ekki sé lögð jafn mikil áhersla á að lagið sé um hátíðina eða Vestmannaeyjar. Dans á rósum átti þjóðhátíðarlagið Stund með þér í fyrra en lagið áttu meðlimir sveitarinnar í handraðanum og datt í hug að bera það undir þjóðhátíðarnefnd sem leist glimrandi vel á en hljómsveitin hefur spilað á þjóðhátíð síðastliðin sex ár.