Einn Ground Zero við Ingólfstorg er eina leikjasetrið sem enn er starfrækt á höfuðborgarsvæðinu. Þar hittast vinahópar gjarnan og spila tölvuleiki.
Einn Ground Zero við Ingólfstorg er eina leikjasetrið sem enn er starfrækt á höfuðborgarsvæðinu. Þar hittast vinahópar gjarnan og spila tölvuleiki. — Morgunblaðið/G.Rúnar
Eftir Ásgeir Ingvarsson asgeiri@mbl.is Á UNDANFÖRNUM fimm árum hafa orðið töluverðar breytingar á tölvuleikjasamfélaginu á höfuðborgarsvæðinu.

Eftir Ásgeir Ingvarsson

asgeiri@mbl.is

Á UNDANFÖRNUM fimm árum hafa orðið töluverðar breytingar á tölvuleikjasamfélaginu á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2003 voru starfrækt einskonar leikjasetur víða um bæinn, K-Lanið við Hlemm, Gamedome í Kringlunni, Revolution í Hafnarfirði, Bunker í Síðumúla og Ground Zero við Ingólfstorg. Í dag er aðeins Ground Zero enn starfandi.

Þessa þróun má m.a. rekja til þess að nýir leikir hafa komið fram sem krefjast öðruvísi spilunar sem á ekki jafnvel heima á leikjakaffihúsum: „Með vaxandi vinsældum hlutverkaspilunar-leikja, þar sem leikmaðurinn er með sinn eigin karakter og líf á netinu, þá minnkaði mótastemningin. Á meðan þú gast einfaldlega verið betri en næsti maður í að spila skotleik þá felst árangur í hlutverkaleikjum í að nenna að spila sem lengst,“ segir Gísli Hreiðarsson, starfsmaður Ground Zero.

Sækja í stemninguna

Gísli segir eftir sem áður nóg að gera á Ground Zero og þakkar hann það góðum rekstri og staðsetningu. Hann segir algengt að smærri og stærri vinahópar heimsæki staðinn til að reyna með sér í leikjum en einnig sé allstór hópur fastakúnna sem koma daglega til að spila í skemmri og lengri tíma: „Þegar menn hafa á annað borð kynnst þessari LAN-stemningu (fjöldaspilun gegnum samtengdar tölvur) þá er erfitt að hætta. Kannski er spilað heima sum kvöld, en það verður fastur liður í tilverunni að hittast og spila með vinahópnum.“

Vinsælustu leikirnir í Ground Zero eru Warcraft-leikirnir og svo hefðbundnir skotleikir líkt og Battlefield og Call of Duty. Counter Strike lifir líka enn góðu lífi og EVE online, en fyrrnefndi leikurinn fór í dreifingu árið 2000 og sá síðarnefndi 2003. „Ef menn eru búnir að þjálfa sig vel upp þá vilja þeir halda því við,“ segir Gísli um vinsældir Counter Strike.