Erfitt Fasteignamarkaðurinn á erfitt uppdráttar um þessar mundir, að mati Greiningar Glitnis.
Erfitt Fasteignamarkaðurinn á erfitt uppdráttar um þessar mundir, að mati Greiningar Glitnis. — Morgunblaðið/G.Rúnar
ÞÓTT fasteignamarkaðurinn hafi þegar kólnað töluvert má búast við því að kólnunin verði enn meiri og að hún muni vara langt fram á næsta ár. Þetta er mat Greiningar Glitnis, sem fram kemur í Morgunkorni bankans í gær.

ÞÓTT fasteignamarkaðurinn hafi þegar kólnað töluvert má búast við því að kólnunin verði enn meiri og að hún muni vara langt fram á næsta ár. Þetta er mat Greiningar Glitnis, sem fram kemur í Morgunkorni bankans í gær. Eins og fram hefur komið spáði Seðlabankinn fyrr á árinu um 30% raunverðslækkun á fasteignaverði á næstu árum og tekur verðbólguspá bankans mið af þeirri spá en fasteignaverð er einn af veigamestu þáttunum í vísitölu neysluverðs.

„Þegar litið er til mælinga Hagstofunnar um þróun íbúðaverðs á landinu öllu kemur í ljós að íbúðaverð hefur lækkað um 0,5% frá byrjun árs en tólf mánaða hækkun húsnæðisverðs á landinu nemur 7,2% og hefur hægt mikið á árshækkun húsnæðisverðs undanfarna mánuði. Til samanburðar nam árshækkun húsnæðisverðs á landinu öllu 16,2% í byrjun árs,“ segir í Morgunkorni en þar er jafnframt vísað til talna frá Fasteignamati ríkisins sem í raun staðfesta tölur Hagstofunnar. Samkvæmt gögnum FMR er árshækkun húsnæðis nú 3,2% sem er mikil breyting frá því í ársbyrjun en þá nam árshækkunin 14%.

Mikið dregur úr umsvifum

„Fasteignamarkaðurinn á erfitt uppdráttar um þessar mundir. Rýrnun kaupmáttar, aukin lánsfjármögnunarkostnaður, versnandi horfur á vinnumarkaði, hækkandi byggingarkostnaður og brottflutningur erlends vinnuafls úr landi spilar þar stórt hlutverk og dregur úr spurn eftir húsnæði um þessar mundir,“ segir í Morgunkorni enda hafa umsvif á fasteignamarkaði dregist mikið saman að undanförnu. sverrirth@mbl.is