Eftir Unu Sighvatsdóttur unas@mbl.is FJARAN við Miðskóga 8 á Álftanesi er ekki friðlýst, eins og haldið var fram í viðtali við Kristján Sveinbjörnsson, forseta bæjarstjórnar á Álftanesi í Morgunblaðinu hinn 23. júlí síðastliðinn.

Eftir Unu Sighvatsdóttur

unas@mbl.is

FJARAN við Miðskóga 8 á Álftanesi er ekki friðlýst, eins og haldið var fram í viðtali við Kristján Sveinbjörnsson, forseta bæjarstjórnar á Álftanesi í Morgunblaðinu hinn 23. júlí síðastliðinn.

Deilur hafa staðið milli lóðareigenda og bæjarstjórnar um byggingarhæfi lóðarinnar, sem bæjarstjórn vill halda óbyggðri sem útivistarsvæði, m.a. á þeim grundvelli að fjaran sé friðlýst. Hið rétta er að Skógtjörn, þar sem fjaran liggur, er á náttúruminjaskrá, ásamt Lambhúsatjörn og Bessastaðatjörn, en hefur ekki verið friðlýst. Hins vegar er Kasthúsatjörn á Álftanesi friðlýst, en lóðin að Miðskógum er ekki inni á því svæði.

Þá kom fram í máli Kristjáns að bæjarstjórn teldi fullvíst að rask yrði á fjörunni við framkvæmdir, auk þess þriðjungur lóðarinnar væri neðansjávar í stórstraumi. Lóðareigendur segja hins vegar að bygging íbúðahússins muni ekki valda raski heldur sé hluti af uppbyggingu lóðareigenda þvert á móti falinn í því að gera upp gamlan, manngerðan sjávargarð í fjörunni. Gera megi ráð fyrir að um 20-25% lóðarinnar, sem er 1.490 fermetrar, sé óbyggileg fjara en restin, um 1.100 fermetrar, séu vel byggilegir. Þetta hafi mat bæði Skipulagsstofnunar og Siglingamálastofnunar á byggingarhæfi lóðarinnar staðfest.

Lóðareigendur á Álftanesi neita því alfarið að um pólitískar árásir sé að ræða. Lóðin að Miðskógum 8 hafi verið keypt í góðri trú og með fyllilega löglegum hætti, enda hafi deiliskipulag verið fyrir hendi um áratugaskeið.

Í hnotskurn
» Lóðareigendur keyptu Miðskóga 8 af einkaaðilum árið 2005 og hugðust reisa hús.
» Ekki hefur fengist byggingaleyfi, og segja bæjaryfirvöld óútkljáð hvort lóðin tilheyri deiliskipulagi.
» Hæstiréttur úrskurðaði að ósannað væri annað en að Miðskógar væru byggingarlóð.