Styttist í þjóðhátíð Tryggvi Már (til vinstri) að störfum í Dalnum.
Styttist í þjóðhátíð Tryggvi Már (til vinstri) að störfum í Dalnum.
Það var nóg að gera hjá Tryggva Má Sæmundssyni þegar 24 stundir náðu tali af honum en hann er í þjóðhátíðarnefndinni og því annríkið mikið þessu síðustu daga fyrir þjóðhátíð í Eyjum. Hann segir undirbúninginn ganga vel.

Það var nóg að gera hjá Tryggva Má Sæmundssyni þegar 24 stundir náðu tali af honum en hann er í þjóðhátíðarnefndinni og því annríkið mikið þessu síðustu daga fyrir þjóðhátíð í Eyjum. Hann segir undirbúninginn ganga vel. „Það er allt á áætlun, við erum að koma öllum mannvirkjum inn í dal, festa þau niður og skreyta. Það er allt í hámarki í þessari viku,“ segir Tryggvi og bætir við að undirbúningurinn sé heldur meiri í ár en oft áður. „Það varð eldsvoði þar sem litli pallurinn okkar skemmdist og það er því alveg búið að endurhanna hann. Í vor var líka ákveðið að slétta tjaldstæðin fyrir hvítu tjöldin þannig að það er svolítið meira að gera hjá okkur núna en áður. Tjaldstæðin hafa verið óbreytt síðan eftir gos og nú var ráðist í að lagfæra efri flötina fyrir heimafólkið. Síðustu árin hefur hvítu tjöldunum fjölgað og þau hafa líka stækkað. Það er mikil barátta að ná góðu tjaldstæði og við urðum eiginlega að fjölga betri tjaldstæðum.“

Fólk á öllum aldri

Hin vel þekktu og vinsælu hvítu tjöld heimamanna eru vanalega sett upp á fimmtudögum en Tryggvi viðurkennir að oft sé þjófstartað á miðvikudegi. En hvernig er hægt að ná besta plássinu? „Besta plássið fæst með því að koma í dalinn og vinna fyrir ÍBV en þeir sem það gera fá forgjöf. Þeir fá að taka frá stæði fyrr og svo kemur hinn almenni bæjarbúi strax á eftir, dalurinn fyllist því sirka tveimur mínútum síðar.“

Aðspurður af hverju þjóðhátíð í Eyjum sé ein vinsælasta úthátíðin um verslunarmannahelgina ár eftir ár segir Tryggvi að eitthvað hljóti Eyjabúar að vera að gera rétt. „Við erum með stórskemmtilegt svæði og reynum að vera alltaf með bestu skemmtikrafta landsins. Svo má ekki gleyma bæjarbragnum, Vestmannaeyingar taka í stórum stíl mikinn þátt í hátíðinni og flytja búferlum inn í dal sem hefur mikið að segja. Hér kemur líka fólk á öllum aldri og það er að færast í aukana að miðaldra og eldra fólk komi ofan af landi. Við heyrum til dæmis af því að aðkomufólk láti útbúa fyrir sig hvít tjöld eins og heimamenn eru í og það er bara gaman að því,“ segir Tryggvi sem hefur farið á um þrjátíu þjóðhátíðir. „Ég hef einungis misst af þremur hátíðum sem smábarn en þá fékk maður engu ráðið um það. Maður fær aldrei leiða á þjóðhátíð.“

Skemmtileg hátíð

Tryggvi segir að þjóðhátíðarnefndin byrji að huga að þjóðhátíð upp úr áramótum. „Þá erum við alltaf með punkta um það sem mætti betur fara frá árinu á undan. Segja má að maður sé með hugann við þjóðhátíð meira og minna allt árið. Það er alltaf mikil ásókn í að koma á þjóðhátíð og troða upp og skemmtikraftar vilja helst hvergi annars staðar vera en hér því hér er mesta fjörið,“ segir Tryggvi og bætir við að það sé heilmargt sem standi upp úr á þjóðhátíð. „Brennan, flugeldasýningin og brekkusöngurinn er alltaf svolítið sérstakur. Ég hef líka mjög gaman af setningu hátíðarinnar en þá kemur fólk prúðbúið og það er hugvekja og hátíðarræða sem setur skemmtilegan svip á hátíðina.“

svanhvit@24stundir.is