— 24stundir/Brynjar Gauti
„Ég hef bara komið einu sinni á þjóðhátíð. Það var árið 1990 en ég fór þangað með Stjórninni til að spila,“ segir Sigríður Beinteinsdóttir en þótt hún hafi skemmt sér vel segir hún að lítill tími hafi gefist til annars en að vinna.

„Ég hef bara komið einu sinni á þjóðhátíð. Það var árið 1990 en ég fór þangað með Stjórninni til að spila,“ segir Sigríður Beinteinsdóttir en þótt hún hafi skemmt sér vel segir hún að lítill tími hafi gefist til annars en að vinna.

„Þessar þjóðhátíðir eru bara púl allan tímann. Við reyndum að láta okkur líða sem best á milli þess sem við spiluðum og leigðum okkur raðhús og kokk sem eldaði ofan í okkur. Það fór því bara vel um okkur.“

Sigríði er sérstaklega minnisstætt atvik sem átti sér stað þegar Stjórnin steig á stokk á sunnudagskvöldinu og mannskapurinn var orðinn þreyttur eftir helgina.

„Sumir verða svolítið villtir og fara að grýta hinu og þessu. Og bassaleikarinn okkar, Eiður, lenti í því að fá glerflösku í höfuðið í miðju lagi. Þetta var alveg skelfilegt en hann kláraði þó lagið. Svo sjáum við að það er að byrja að líða yfir hann og eftir svona tvær til þrjár mínútur er hann kominn með þessa rosa kúlu á hausinn. Við hættum þá að spila og fórum með hann upp á sjúkrahús. En hann var svo harður af sér að hann kom beint til baka með bundið um höfuðið og fékk sér stól og kláraði ballið. Svo spiluðum við til hálfsjö um morguninn og flugvélin okkar fór klukkan sjö. Þetta hefðu ekki allir gert.“

En þetta er ekki ástæða þess að hún hefur ekki átt afturkvæmt.

„Það hefur bara verið mikið að gera. Ég er í raun búin að vera að spila á hinum og þessum stöðum um landið síðan þá.“

Og það verður engin breyting á um þessa verslunarmannahelgi en Sigga og Bryndís Ásmunds verða með Tinu Turner-tribute á Players í Kópavogi á föstudagskvöldinu og svo á Vélsmiðjunni á Akureyri á laugardags- og sunnudagskvöld.

hj