Víddarteikningar Creighton Michael við verk sitt „Rapsody“ í Hafnarborg.
Víddarteikningar Creighton Michael við verk sitt „Rapsody“ í Hafnarborg. — Morgunblaðið/Frikki
Eftir Helga Snæ Sigurðsson helgisnaer@mbl.is BANDARÍSKI myndlistarmaðurinn og -kennarinn Creighton Michael heillaðist af íslensku landslagi á ferð sinni um landið fyrir fjórum árum.

Eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

BANDARÍSKI myndlistarmaðurinn og -kennarinn Creighton Michael heillaðist af íslensku landslagi á ferð sinni um landið fyrir fjórum árum. Nú hefur hann snúið aftur en þó ekki sem ferðamaður því hann er að setja upp sýningu í Hafnarborg sem opnuð verður á morgun kl. 15. Sýningin heitir Bylgjulengdir .

Á efri hæð Hafnarborgar blasir við framandlegt landslag dökkleitra forma sem við fyrstu sýn minna á hraunmola. Þarna er verkið „Rapsody“ á ferð. Við nánari skoðun kemur í ljós að formin eru reipi hjúpað torkennilegu efni. Creighton upplýsir að reipið sé hjúpað blöndu úr pappír og blýi. Þetta sé því í raun teikning, nánar tiltekið „dimensional drawing“ eða „víddarteiknun“. Hann segir íslenskt hraun ekki innblástur verksins heldur vörður sem víða má finna á Íslandi. Þær hafi hann séð í fyrsta sinn á ævinni þegar hann heimsótti Ísland og hrifist mjög af.

Sagnahefðin líka með

Vörðurnar á gólfi salarins í Hafnarhúsi eru, líkt og þær sem dreifðar eru um landið, innbyrðis ólíkar og allavega að stærð. Creighton segist hafa orðið snortinn af friðsældinni og kraftinum í íslenskri náttúru og fundið fyrir yfirþyrmandi tilfinningu andspænis henni, tilfinningu fyrir einveru. Pappírs- og blýblanda Creightons vísar ekki aðeins í teikningu í sinni frumstæðustu mynd heldur einnig í bókmenntahefð Íslendinga, Íslendingasögurnar. „Þetta snýst að miklu leyti um vinnuferlið,“ segir Creighton um verk sín, hann spinni af fingrum fram, teikni nær ósjálfrátt. Því til dæmis sýnir hann blaðamanni verk á pappír sem eiga að fara á veggi Hafnarborgar og StartArt á Laugavegi, m.a. grafíkmyndir þrykktar með blýlit, rismyndir þrykktar upp úr blýverkum á pappír og ljósmyndagrafíkverk unnin upp úr víddarteikningunum. Eitt verk verður að öðru, hver myndaröð saga af teikniferli. Sjón er vissulega sögu ríkari.
Í hnotskurn
» Alta L. Price, aðstoðarmaður Creightons, segir m.a. um verkið „Rapsody“: „Uppruni orðsins er líka athyglisverður – það á rót sína að rekja til gríska orðsins „rhapsoidia“ sem táknar framsögn söguljóða, það tengist sögninni „rhaptein“ sem þýðir að sauma eða sauma saman og „aidein“, að syngja.“
» Creighton Michael útskrifaðist frá Háskólanum í Washington með MFA-gráðu í myndlist árið 1978. Hann hefur unnið til margra verðlauna, m.a. hlotið golden Foundation for the Arts Grant árið 2000 og Pollock Krasner-styrk 1985. Frekari fróðleikur á creightonmichael.com.