SAMANLAGÐUR kostnaður þeirra eitt þúsund Íslendinga sem neyta megrunarlyfja er um 44 milljónir króna á ári. Lyfin eru misdýr, en mánaðarskammtur kostar á bilinu sjö til sextán þúsund krónur.

SAMANLAGÐUR kostnaður þeirra eitt þúsund Íslendinga sem neyta megrunarlyfja er um 44 milljónir króna á ári. Lyfin eru misdýr, en mánaðarskammtur kostar á bilinu sjö til sextán þúsund krónur. Tryggingastofnun kemur til móts við kostnaðinn og greiða um 40% upphæðarinnar.

Megrunarlyf hafa einnig verið afar vinsæl í Danmörku, en þar eru nú um 21 þúsund manns á þessum lyfjum að því er segir í Berlingske Tidende og er áberandi aukning í neyslu þeirra meðal eldri borgara.

Konur eru 80% allra neytenda í Danmörku, en á Íslandi eru karlar hins vegar í meirihluta, eða 53% þeirra sem nota megrunarlyf.

Megrunarlyf hafa löngum verið umdeild. Árið 2000 voru til dæmis um 100 þúsund Danir á megrunarlyfjum, en þegar lyfið Letigen var tengt við nokkur dauðsföll hrapaði tala notanda. Vinsældir þeirra hafa hins vegar aukist jafnt og þétt síðan, þótt læknar séu ekki á eitt sáttir um virkni þeirra.

Í hnotskurn
» Vinsælustu megrunarlyfin eru Xenical, Acomplia og Reductil.
» Virkni þeirra er ólík, þau tvö síðarnefndu eiga að draga úr matarlyst en Xenical á fyrst og fremst að hindra upptöku á fitu úr fæðunni.

Leiðrétt 26. júlí - Fleiri konur nota megrunarlyf

Í frétt í Morgunblaðinu í gær og á vefsjónvarpi um notkun megrunarlyfja var ranglega sagt í niðurlagi að fleiri karlar notuðu lyfið hér en konur. Þessar upplýsingar höfðu komið frá Tryggingastofnun ríkisins en mistök urðu í útreikningum stofnunarinnar sem hún hefur nú leiðrétt og biðst velvirðingar á.

Hið rétta er að af notendum lyfsins hér eru tæp 80% konur og rúm 20% karlar.