Leikarinn Sigurður Skúlason
Leikarinn Sigurður Skúlason — Morgunblaðið/Ásdís
Sigurður Skúlason leikari lauk í gærkvöldi lestri á Pan eftir Knut Hamsun í þýðingu Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi sem kvöldsögu ríkisútvarpsins.

Sigurður Skúlason leikari lauk í gærkvöldi lestri á Pan eftir Knut Hamsun í þýðingu Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi sem kvöldsögu ríkisútvarpsins. Þessi lestur Sigurðar var afbragðsgóður, hann hefur oft áður haft ofan af fyrir mér með upplestri, ekki sízt á ljóðum sem hann fer einstaklega vel með, eins og reyndar allan texta. Sigurður les með blæbrigðaríkri innlifun, sem einnig einkennir leik hans, hvort heldur er á sviði eða í kvikmyndum.

Á síðasta ári hélt Sigurður upp á 40 ára leikafmæli ásamt Margréti Helgu Jóhannsdóttur og átti ég þá stutt samtal við þau sem birtist í Morgunblaðinu um það leyti sem ég átti 40 ára starfsafmæli í blaðamennskunni. Þá rifjuðum við Sigurður það upp að ég hafði sem ungur blaðamaður á Morgunblaðinu tekið samtal við hann í flokknum; Ungir leikarar. Síðan hafði mikið vatn til sjávar runnið og Sigurður skemmt mér konunglega með leiklist sinni, en fengið í staðinn öllu rýrari hlut frá blaðamanninum mér. Hvað um það þá hefur svo sem ýmislegt gerzt á 40 árum og samtal okkar Sigurðar bar með sér að þá voru aðrir tímar en nú. En eitt hafði bara breytzt til batnaðar; listfengi Sigurðar Skúlasonar í textameðferð.

Freysteinn Jóhannsson

Höf.: Freysteinn Jóhannsson