Tónlistarhátíðin Bræðslan á Borgarfirði eystri verður haldin í fjórða sinn laugardaginn 26. júlí kl. 20. Hátíðin hefur vakið töluverða athygli á undanförnum árum enda margir mætir tónlistarmenn sem hafa troðið þar upp.

Tónlistarhátíðin Bræðslan á Borgarfirði eystri verður haldin í fjórða sinn laugardaginn 26. júlí kl. 20. Hátíðin hefur vakið töluverða athygli á undanförnum árum enda margir mætir tónlistarmenn sem hafa troðið þar upp. Meðal þeirra sem hafa leikið í Bræðslunni eru Emilíana Torrini, Megas og Senuþjófarnir og Belle & Sebastian.

Það verður einnig einvala lið sem stígur á svið í Bræðslunni annað kvöld. Írska söngvaskáldið Damien Rice er aðalnúmerið í ár en færeyska söngkonan Eivör Pálsdóttir og heimamaðurinn Magni Ásgeirsson koma einnig fram á hátíðinni að þessu sinni.

Tónlistarhátíðin Bræðslan dregur nafn sitt af samnefndum síldarskúr sem skapar tónleikunum nokkuð óvenjulega umgjörð. Undanfarin ár hafa um 1.000 manns sótt hátíðina að jafnaði en til samanburðar má benda á að aðeins búa um 140 manns á Borgarfirði eystri.