Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur ylfa@mbl.is FÆRST hefur í aukana að áhvílandi lán á íbúðarhúsnæði hækki upp undir söluverð íbúða og fari jafnvel yfir söluverðið, sökum verðbólgu og gengisþróunar.

Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur

ylfa@mbl.is

FÆRST hefur í aukana að áhvílandi lán á íbúðarhúsnæði hækki upp undir söluverð íbúða og fari jafnvel yfir söluverðið, sökum verðbólgu og gengisþróunar. Það heyrir þó yfirleitt til undantekninga, enn sem komið er, en nokkrir fasteignasalar, sem rætt var við, sögðust hafa heyrt dæmi um slíkt.

Mun aukast dragi ekki úr verðbólgunni

Að sögn Ingibjargar Þórðardóttur, formanns Félags fasteignasala, er framboðið af íbúðum, þar sem áhvílandi skuldir eru ámóta háar og söluverðið, ekki mikið. Þeir íbúðaeigendur, sem versnandi efnahagsástand hefur komið hvað harðast niður á, séu helst þeir sem keyptu með gengistryggðu lánunum sl. haust og fram yfir áramót. Þeir sem keyptu fyrr hafa hins vegar notið þeirra hækkana sem orðið hafa á fasteignum síðustu fjögur árin. Verðtryggðu lánin hafi ekki náð að éta upp þær hækkanir enn sem komið sé.

Ingibjörg segir að dragi ekki úr verðbólgunni megi búast við því að fleiri muni eiga í erfiðleikum með að standa í skilum. „Sérstaklega núna eins og staðan er, að afborganir hafa hækkað mikið og þá helst á erlendu lánunum. Þau eru ekki þessi „annuitets-lán“ þar sem er borgað jafnt út allt tímabilið heldur er aðeins verið að borga jafnar afborganir. Nú þegar gengið hefur veikst um rúm 40% frá áramótum þá þýðir þetta auknar álögur á þá sem hafa tekið þessi lán.“

Hins vegar er það mat Ingibjargar að fólk reyni að standa í fæturna í lengstu lög hvað íbúðalánin varðar og því hafi lítið borið á því að fólk neyðist til að selja eignir sínar.

30 milljóna hækkun

„VIÐ ætlum að reyna að þrauka, þetta ástand hlýtur að lagast þótt það taki kannski 2-3 ár,“ segir kona nokkur sem tók erlent lán í september 2007.

Lánið er í japönskum jenum og svissneskum frönkum og hljóðaði lánsupphæðin upp á 70 milljónir þegar það var tekið. Í dag stendur lánið í 100 milljónum.

Samkvæmt nýjustu tölum Seðlabankans hafa erlend lán heimilanna hækkað úr tæpum 94 milljörðum í júlí 2007 í rúma 223 milljarða nú í júní. Þar af eru skuldir vegna íbúðalána tæpur 91 milljaður en voru rúmir 32.

Gengisbundin íbúðalán