Eftir Skúla Á. Sigurðsson skulias@mbl.is ÍBÚI við Þingholtsstræti hefur kært ákvörðun Reykjavíkurborgar um deiliskipulag fyrir reit Menntaskólans í Reykjavík til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Eftir Skúla Á. Sigurðsson

skulias@mbl.is ÍBÚI við Þingholtsstræti hefur kært ákvörðun Reykjavíkurborgar um deiliskipulag fyrir reit Menntaskólans í Reykjavík til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Krafist er að ákvörðunin verði felld úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar komi til þeirra.

Telja íbúar í götunni á sér brotið og halda fram að skipulagið hafi ekki verið kynnt sem skyldi. Auk þess gera þeir fjölda annarra athugasemda við feril málsins. Þeim þykir illa komið fram við þá og tala um valdhroka borgaryfirvalda. Hjá borginni fengust þau svör að staðið hefði verið rétt að málum.

Samræmis ekki gætt

Borgaryfirvöld auglýstu deiliskipulagið lögum samkvæmt í B-deild Stjórnartíðinda og fjölmiðlum en höfðu ekki sérstakt samráð við kæranda eða aðra íbúa.

Íbúar í nágrenninu segja ekki gæta samræmis í kynningum borgarinnar. Einn nágranni hafi til að mynda gert lítils háttar breytingar á húsi sínu og þá hafi borist ítarlegt kynningarbréf. Aftur á móti var bygging 600 fermetra íþróttahúss nokkrum metrum frá garðskála í bakgarði hennar ekki talin verð frekari kynningar en lágmarkskröfur laga gera ráð fyrir. „Okkur finnst mjög sérstakt hvernig þetta laumaðist í gegn,“ segir einn íbúa.

Þeir segjast nú þegar hafa orðið fyrir óþægindum af völdum skipulagsins en kaupsamningi um eitt hús við götuna var rift vegna þess. Seljandi hafði þá ekkert veður haft af því. Íbúum er einnig annt um hina gömlu götumynd strætisins en hún er ein sú elsta í borginni. „Ef þeir vilja eyðileggja miðbæinn og sögu Reykjavíkur eiga þeir bara að kaupa fólk í burtu, þeir eiga ekki að valta svona yfir eignir annarra.“ Íbúar taka einnig undir hugmyndir um að finna þurfi Menntaskólanum í Reykjavík nýjan stað.

Síðast kynnt fyrir 14 árum

Að sögn íbúa var þeim ítarlega kynnt skipulagið árið 1994. „Við höfum aldrei fengið bréf eða kynningu um allar þessar breytingar sem orðið hafa á hugmyndinni síðan þá,“ segir einn þeirra. Íbúar bæta einnig við að þá hafi legið fyrir að íþróttahúsið yrði að mestu neðanjarðar með lágreistu þaki. Nú standi hins vegar til að húsið standi 2,5 metra úr jörðu og þar ofan á komi einhvers konar glerhýsi. „Það hefur ekkert breyst síðan [1994], þetta er eins og þetta var kynnt þá,“ segir Jóhannes S. Kjarval, hjá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar, þegar þetta er borið undir hann.

Íbúarnir hafa einnig lýst áhyggjum yfir sprengingum sem koma til með að fylgja byggingu íþróttahússins. Sprengja þarf í klöpp og telja þeir alls óvíst að húsin við götuna þoli slíkan hamagang en sum húsanna eru byggð á níunda áratug 19. aldar.

Í hnotskurn
» Íþróttahús samkvæmt deiliskipulaginu mun samkvæmt kærunni varpa skugga á lóðir og rýra birtuskilyrði á þeim.
» Ágreiningur er um hvort upprunalegri hugmynd að neðanjarðaríþróttahúsi hafi verið breytt eða ekki. Íbúar vilja meina að það komi til með að standa mun lengra upp úr jörðu en þeim var tjáð.
» Íbúar við Þingholtsstræti telja að réttast væri að færa Menntaskólann við Reykjavík, til dæmis í Vatnsmýrina. Skólinn hafi fyrir löngu sprengt utan af sér núverandi húsnæði.
» Húsin við Þingholtsstræti sem liggja að reit Menntaskólans í Reykjavík eru byggð á árunum 1881-1924. Íbúar telja óvíst að þau þoli að sprengt verði fyrir íþróttahúsinu.