Í kvöld verður haldin góðgerðarveisla á Hilton Reykjavík Nordica Hótel, til styrktar SHOE4AFRICA-samtökunum, sem stofnuð voru af hinum íslensk-ættaða Toby Tanser. Þar fer fram uppboð á ýmsum knattspyrnumunum, en
meðal muna sem boðnir verða upp eru áritaðir Nike-knattspyrnuskór frá sjálfum Cristiano Ronaldo, einum albesta leikmanni heims í knattspyrnu, en hann er, ásamt þeim Natalie Portman, Cameron Diaz, Anthony Edwards og fleirum, ötull stuðningsmaður samtakanna.
Einnig verða aðrir munir í boði, eins og árituð Barcelona-treyja frá Eiði Smára Guðjohnsen, áritaður Manchester United-bolur og bók frá Cristiano Ronaldo og ýmislegt fleira.
SHOE4AFRICA-samtökin hafa í þrettán ár staðið fyrir skósöfnun til Afríku, en vegna vaxandi hörmunga í Kenýa er nú mikil þörf á læknisaðstoð ýmiss konar, meðal annars hafa SHOE4AFRICA einsett sér að byggja barnaspítala.
Góðgerðarkvöldið hefst klukkan 20.00 og stendur til 22.30. Ýmis tónlistar- og skemmtiatriði verða í boði, en miðaverð er 20.000 krónur. Þeir sem vilja styrkja byggingu barnaspítalans geta einnig hringt í síma 907 1001 (1000kr), 907 1003 (3000kr) eða 907 1005 (5000kr).
tsk