Stíft Þormóður fékk einn frídag með barni og konu, en svo tóku æfingar við.
Stíft Þormóður fékk einn frídag með barni og konu, en svo tóku æfingar við.
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is „MAÐUR hefur varla tíma til að bursta í sér tennurnar, það er svo margt að gerast. Maður er ekki alveg búinn að átta sig,“ segir Þormóður Árni Jónsson júdókappi.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

„MAÐUR hefur varla tíma til að bursta í sér tennurnar, það er svo margt að gerast. Maður er ekki alveg búinn að átta sig,“ segir Þormóður Árni Jónsson júdókappi.

Það er skammt stórra högga á milli hjá Þormóði. Á þriðjudaginn sl. fæddist honum og Bylgju Dögg Sigurðardóttur, kærustu hans, sonur og þann 15. ágúst nk. keppir hann í júdó fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum.

Þormóður hefur æft fjóra tíma á dag undanfarið og það verður þannig alveg fram að Ólympíuleikum. „Síðustu dagar hafa farið í stífar æfingar og þess á milli hef ég bara verið uppi á spítala að sinna konunni,“ segir Þormóður. Sonur þeirra er fyrirburi, en heilsast vel.

Vel undirbúinn

Sonur Þormóðs og Bylgja verða heima á Íslandi meðan hann keppir úti í Kína. Foreldrar hans verða þó í Peking að styðja við bakið á honum og hann á vini í Kína sem ætla að fylgjast með.

Þormóður segist vel undirbúinn. „Í júdóinu er það þannig að ekkert er fyrirfram ákveðið. Það getur allt gerst. Stundum þarf bara ein mistök hjá mótherja og þá er sigurinn í höfn. Ég þori ekkert að spá fyrir um árangur. Ég er í mínu besta formi á ferlinum og ég mun leggja mig allan fram,“ segir Þormóður.

Aðspurður hvort það veiti honum aukainnblástur í keppninni að verða faðir, segir Þormóður svo vera. „Þetta sló mig samt örlítið út af laginu síðustu vikur. Barnið að koma í heiminn og stífar æfingar. Maður þurfti svolítið að stilla strengina, einn hlut í einu.“ Þormóður tók sér einn dag í frí til að vera með barni og konu en svo hófust stífar æfingar strax daginn eftir.