21. aldar Batman Jim Lee teiknaði þennan bláleita og hörkulega Batman fyrir fimm árum.
21. aldar Batman Jim Lee teiknaði þennan bláleita og hörkulega Batman fyrir fimm árum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir H. Ingólfsson asgeirhi@mbl.

Eftir Ásgeir H. Ingólfsson

asgeirhi@mbl.is

SÍÐAN Bob Kane og Bill Finger sköpuðu Batman árið 1939 hefur hann fengið ótal andlitslyftingar og þróun persónunnar, bæði í teiknisögum og bíómyndum, hefur verið á svipuðum nótum; fyrst dökkur, svo ljós og jafnvel kjánalegur, og loks myrkari en nokkurn tímann. Í sjónvarpinu var Batman hins vegar aldrei sérstaklega hættulegur, þvert á móti nánast gangandi orðabókaskilgreining á því sem Bandaríkjamenn kalla „campy,“ sérstaklega þá í frægum þáttum með Adam West í hlutverki Blaka – sem varð meira að segja að einni bíómynd að auki, sem er þó sjaldnast talin með hinum „alvöru“-myndunum. Áður höfðu þó þeir Lewis Wilson og Robert Lowery leikið hetjuna í þáttum sem nú eru flestum gleymdir.

Yfirþyrmandi lífsgleði og aulahúmor

En um svipað leyti og Adam West átti í einhverjum mest ósannfærandi bardögum sjónvarpssögunnar (miðað við bardagastílinn virtist hann ekki líklegur til þess að geta yfirbugað níræða konu í göngugrind) þá smitaðist þessi yfirþyrmandi lífsgleði og aulahúmor þáttanna að nokkru inn í teiknisögurnar, sem voru þó orðnar nokkuð útvatnaðar þá þegar, sökum harðra ritskoðunarreglna – en þær urðu þó blessunarlega aldrei jafn kjánalegar og þættirnir. Þegar þættirnir, sem voru raunar furðu vinsælir, runnu sitt skeið döluðu vinsældir Blaka mikið. Myndasögurnar byrjuðu þó að dökkna á ný og undir lok áttunda áratugarins tók Dennis O'Neill við að ritstýra titlinum og endurskapaði goðsöguna að miklu leyti.

Bíó-Batman fæðist

Það var svo í upphafi níunda áratugarins sem hagur Batman fór að vænkast og réð þar mestu saga þeirra Frank Millers, The Dark Knight Returns , og síðan þá hefur myrkrið oftast umlukið teikni-Batman. Í kjölfarið fylgdu sögur eins og Arkham Asylum eftir Grant Morrison og Dave McKean, The Killing Joke eftir Alan Moore og Brian Bolland og Batman: Year One eftir áðurnefndan Miller og David Mazzucchelli.

Í þennan brunn sótti svo Tim Burton í fyrstu tveimur Batman-myndunum, og bætti við sinni eigin gotnesku sérvisku, en þegar Joel Schumacher settist í leikstjórastólinn fór heldur að birta yfir og þótti sú birta fæstum jákvæð. Ekki það að fyrri mynd hans, Batman Forever , hafi verið alslæm en það var hins vegar sú næsta, Batman & Robin , sem nánast gerði út af við Bíó-Blakann (sem og feril Arnold Schwarzenegger, Aliciu Silverstone og Chris O'Donnell, aðeins George Clooney og Uma Thurman komust aftur á lappir eftir þetta) með vafasömum Blöku-geirvörtum. En þrátt fyrir allt var þó jafnvel búningur þessa Batmans ansi dökkur, grái gallinn sem Batman klæddist lengst af hefur enn ekki komist í bíó nema í útgáfu Adams Wests. Ljósið í myrkrinu um þessar mundir var þó að teiknisögurnar héldu sínu striki og loksins kom alvöru Batman í sjónvarpið, teiknaður í þetta sinn. Þar mátti meðal annars sjá Batman framtíðarinnar yfir götum Gotham-borgar löngu eftir að Bruce Wayne lagði kápunni.

Loks nær svo Christopher Nolan að reisa hetjuna upp frá dauðum og rúmlega það, myrkari en nokkru sinni fyrr. En svo er alltaf spurning hvort einhver geti ekki gert glaðlyndan Batman almennilega?