Í Sal íslenskrar grafíkur stendur yfir sýning sex listakvenna sem eru að hefja feril sinn. Þema sýningar þeirra er leikur og sköpun og nokkur verkanna leitast við að virkja áhorfendur til eigin sköpunar. Unnið er í ýmsa miðla, en ljósmyndir og myndband mest áberandi.
Harpa Dögg Kjartansdóttir gerir persónulegar og fínlegar klippimyndir í bland við vatnsliti, myndir hennar minna á vatnslitamyndir frá Austurlöndum, klippimyndir frá síðustu öld eða perlur á borð við klippimyndir Muggs. Þetta eru áferðarfallegar myndir sem vekja forvitni en eiga á hættu að verða ofursætar. Ljósmyndir Emmu Sofiu Lindahl leika sömuleiðis á ljóðræna strengi, hér er sögð ferðasaga án orða, en viðfangsefni og framsetning eru full fjarlæg og sjónræn áhrif daufleg til að ná að verða eftirminnileg. Þórdís Jóhannesdóttir raðar einnig upp ljósmyndabrotum en hér er áhorfandanum boðið að raða myndunum sjálfur saman og skapa sitt eigið verk. Aðferðin virkar vel og verkið virðist ná að lifna á þeim forsendum, en inntak þess umfram þetta samspil listamanns og áhorfanda liggur ekki eins ljóst fyrir. Sigurrós Svava Ólafsdóttir sýnir skúlptúr úr tré í stíl sem minnir á teiknimyndasögur eða myndskreytingar og væri áhugavert að sjá umfangsmeiri verk af þessum toga.
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir sýnir innsetningu byggða á einskonar skissum út frá ferningamynstri, kínverskri skák og tafli; hluti verksins er taflborð sem tveir menn stóðu að tafli við á meðan ég skoðaði og ljáðu þeir verkinu líf sem annars hefði nokkuð á vantað.
Myndbandsinnsetning Jeannette Castioni kemur á óvart og fangar athyglina en hér er á ferðinni áhugaverð listakona sem áður hefur sýnt óvenjuleg, persónuleg og sérstök verk. “ My sky “ kallar hún innsetningu sína sem er opin fyrir túlkun áhorfandans. Menningarlegur bakgrunnur listakonunnar frá Ítalíu kemur fram í myndbandi af marmarastyttum, og vangaveltur um líkama, áferð og nálægð í myndum af sofandi manneskju og rúmfötum. Framsetning verksins í stórum pappakassa minnir á flutning milli landa en blár blettur á gólfi er eins og gat milli skýja. Sterkt og flott verk sem kemur á óvart og spennandi að sjá framhald á vinnu Castioni.
Í heild er sýningin í góðum samhljómi og birtir áhugaverða mynd af viðfangsefnum og vinnuaðferðum listamanna í upphafi ferils.
Ragna Sigurðardóttir