Eftir Skúla Unnar Sveinsson
skuli@mbl.is
„ÞAÐ er alveg sama hvort við komumst áfram í milliriðla eða ekki – stelpurnar hafa staðið sig frábærlega og hafa komið öllum hér á þessu móti mjög á óvart,“ sagði Stefán Arnarsson, landsliðsþjálfari U20-ára handknattleiksliðs kvenna, eftir að liðið lagði Þjóðverja 24:23 á Heimsmeistaramótinu í Makedóníu.
Leikurinn í gær var hnífjafn og skiptust liðin á um að vera með eins marks forystu að sögn Stefáns. „Við komust síðan í 24:22 undir lok leiksins. Þjóðverjar ná að skora og við misstum boltann þegar tíu sekúndur voru eftir en tíminn var of naumur fyrir Þjóðverja til að ná að jafna,“ sagði Stefán.
„Við erum hér að spila í þeim riðli sem allir kalla dauðariðilinn því hann er það erfiður. Það er virkilega gaman að sjá hvernig stelpurnar hafa spilað þessa þrjá leiki og nú eru það bara Rúmenar sem eru eftir. Þær eru með sterkt lið og eru komnar upp að vegg því þær eru búnar að tapa fyrir Þjóðverjum og Ungverjum en urðu í þriðja sæti á EM í fyrra og vilja sanna sig. Þær eru núna neðstar í riðlinum með ekkert stig. Efstir eru Ungverjar með 5 stig, síðan við og Þjóðverjar með 4 og Slóvenar með eitt stig.
Það er ekki enn ljóst hvort við komumst áfram úr riðlinum, en þrjár þjóðir gera það. Það veltur á úrslitum leikja á morgunn og svo gæti farið að það færi eftir úrslitum leikja á laugardaginn þó svo við eigum ekki leik þá,“ sagði Stefán.
Þórey Rósa Stefánsdóttir var markahæst í gær með 6 mörk, Karen Knútsdóttir gerði 5, Rut Jónsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir 4 mörk hvor og þær Sunna María Einarsdóttir, Arna Sif Pálsdóttir, Hildur Þorgeirsdóttir, Auður Jónsdóttir og Rebekka Rut Skúladóttir eitt mark hver. Guðrún Ósk Maríasdóttir átti stórleik í markinu og varði nítján skot að sögn landsliðsþjálfarans.