Aflþynnur Eyþór Arnalds forsvarsmaður segir að markið verði sett á að vinna upp tafirnar þannig að verksmiðjan hefji starfsemi fyrir áramót.
Aflþynnur Eyþór Arnalds forsvarsmaður segir að markið verði sett á að vinna upp tafirnar þannig að verksmiðjan hefji starfsemi fyrir áramót. — Morgunblaðið/Hjálmar S. Brynjólfsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hjálmar Stefán Brynjólfsson hsb@mbl.is BECROMAL á Íslandi hefur samið við Húsbygg ehf. um uppbyggingu aflþynnuverksmiðju á Krossanesi. Húsbygg tekur við starfinu af ítölsku verktökunum D&V en samningum við þá var nýlega rift.

Eftir Hjálmar Stefán Brynjólfsson

hsb@mbl.is

BECROMAL á Íslandi hefur samið við Húsbygg ehf. um uppbyggingu aflþynnuverksmiðju á Krossanesi. Húsbygg tekur við starfinu af ítölsku verktökunum D&V en samningum við þá var nýlega rift. Verkið hefur tafist um þrjár vikur, en að sögn Eyþórs Arnalds eins af forsvarsmönnum verksmiðjunnar er markið sett á að vinna upp tafirnar þannig að verksmiðjan hefji starfsemi fyrir áramót:

„Vonir standa til að gangsetning verksmiðjunnar muni hefjast fyrir áramót líkt og upphaflega var áætlað.“ Að sögn Eyþórs verður verksmiðjan sú stærsta sinnar tegundar með 64 vélasamstæður sem vinna afurðina: aflþynnur.

Þar sem verksmiðjan verður byggð upp í þrepum verður ekki strax þörf á þeim 75MW sem verksmiðjan mun að endingu þurfa. Einnig eru stálgrindarhlutar og -veggir, sem búnir voru til fyrirfram, loks komnir til landsins, en eftir þeim hefur verið beðið: „Um 50 gámar eru nú fyrir sunnan með grindinni og bíða þess að fara í uppsetningu,“ segir Eyþór.

Hann bætir við að þetta tvennt muni hjálpa til við að verksmiðjan taki til starfa fyrir áramót.

Greitt fyrir það sem gert er

Heimildarmenn Morgunblaðsins á meðal íslensku verktakanna sem áður störfuðu við verksmiðjuna hafa sagt að þeim hafi lengi vel ekki verið greidd laun. Því vísar Eyþór á D&V:

„Ítalski verktakinn verður að svara ef hann hefur tafið að greiða einhverjum aðilum. Hann verður að vera ábyrgur gerða sinna. En verkið hefur verið unnið eftir hefðbundnum verkstöðlum og óháður umsjónarmaður mat verkið. Það hefur verið greitt fyrir það sem gert var.“

Mengar ekki

Verksmiðjan þurfti ekki að fara í umhverfismat þar sem hún mengar ekki en áhrifin á umhverfið eru að sögn Eyþórs einungis þau að sjórinn umhverfis verksmiðjuna mun hitna um nokkrar gráður.

„Þetta litla ævintýri um græna stóriðju hefur hingað til farið frekar hljótt í fjölmiðlum. Það hefur mikla kosti í för með sér, t.d. hátæknistörf sem munu myndast hér á Akureyri.

Ég á von á að Húsbygg hefjist handa eftir helgi eftir meistara- og verktakaskipti. Þá fara menn að sjá líf og fjör á Krossanesi.“