Max Mosley
Max Mosley
BRESKA götublaðið News of the World var í gær dæmt til að greiða 60.

BRESKA götublaðið News of the World var í gær dæmt til að greiða 60.000 pund, nær 10 milljónir króna, í miskabætur fyrir að birta myndir og frásögn af fimm stunda kynsvalli Max Mosley, forseta Alþjóðaakstursíþróttasambandsins (FIA), með fimm vændiskonum í London í mars.

Niðurstaða dómara hæstaréttar var að blaðið hefði brotið gegn friðhelgi einkalífs Mosleys. Frásögn blaðsins byggðist á leynilegri myndbandsupptöku einnar vændiskonunnar og birti blaðið hluta upptökunnar á netinu.

Mosley er sonur Sir Oswalds Mosleys, sem fyrir seinni heimsstyrjöld var leiðtogi breska fasistaflokksins er átti samstarf við þýska nasista. Gefið var í skyn í News of the World að rauði þráðurinn í svallinu hefði verið hlutverkaleikur þar sem fangabúðalíf í valdatíð nasista hefði verið fyrirmynd.

„Ég sé engan raunverulegan grundvöll fyrir þeirri tilgátu að þátttakendur [í svallinu] hafi gert gys að fórnarlömbum Helfararinnar,“ sagði dómarinn. Mosley, sem er 68 ára, viðurkenndi að hann væri háður svonefndu kvalalostakynlífi. En myndbirtingin hefði verið „hræðilegt áfall“ og auðmýking fyrir eiginkonu sína og syni. kjon@mbl.is