— Ljósmynd/Jón Egill Sveinsson
GUNNAR A. Guttormsson felldi hornaprúðan og 102 kílóa þungan tarf í Eiðaþinghá á mánudaginn var. Gunnar er 79 ára að aldri og elstur starfandi leiðsögumanna með hreindýraveiðum.

GUNNAR A. Guttormsson felldi hornaprúðan og 102 kílóa þungan tarf í Eiðaþinghá á mánudaginn var. Gunnar er 79 ára að aldri og elstur starfandi leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Í þetta skipti var hann í hlutverki veiðimanns og fylgdi því Jón Egill Sveinsson, sem er yngstur leiðsögumanna með hreindýraveiðum, Gunnari til veiða.

Gunnar sagði í samtali við Morgunblaðið að tarfurinn hefði haldið sig í skógrækt á Snjóholti og ekki verið mjög erfitt að ná honum. „Þetta var ekki neitt fyrir gamla manninn, ekki nema svona 2-3 km rölt til að komast í færi,“ sagði Gunnar.

Tarfurinn var felldur undir miðnætti og var aðeins orðið rokkið þegar hann sofnaði svefninum langa. Gunnar sagði að rökkrið hefði ekki verið til trafala, færið hefði verið stutt og miðunarsjónaukinn á rifflinum bjartur.

„Ég ætla að eiga þennan haus því hann er sérstakur,“ sagði Gunnar. Krúnan á tarfinum þykir einkar glæsileg og ekki síst ennisspaðinn sem mældist 40 cm og mun vera sá stærsti sem hornamælingamaður fyrir austan hafði mælt.

Tarfaveiðin hófst 15. júlí sl. og fyrstu vikuna voru felldir 43 tarfar, sem er svipað og í fyrra. Næstu tvo daga bættust 12 tarfar við. Vel hefur viðrað til hreindýraveiða undanfarna daga. gudni@mbl.is