Eftir Kristján Jónsson
sport@mbl.is
KR-INGAR eru komnir í undanúrslit Visa bikarsins í knattspyrnu karla eftir 3:2 sigur á Grindvíkingum í Frostaskjólinu í gærkvöldi. Eins og tölurnar gefa til kynna var leikurinn virkilega fjörugur og er einn sá allra skemmtilegasti sem undirritaður hefur séð í sumar. Stefán Logi Magnússon reyndist hetja KR en hann varði vítaspyrnu frá Scott Ramsay á 66. mínútu en þá var staðan orðin 3:2.
,,Ég gerði bara eins og ég geri alltaf. Horfði á boltann og vonaðist eftir réttri ákvörðun. Þetta var bara heppni, hann hefði alveg eins getað sett mig í vitlaust horn en þetta var minn dagur. Ég fór líka að sjá Batman í gærkvöldi. Það hjálpaði – styrkti trúna,“ sagði Stefán Logi að leiknum loknum og bætti því við að leikmenn hefðu farið saman á myndina: ,,Gunnar Örn Jónsson kom með þetta frá Breiðabliki. Gera eitthvað félagslegt saman kvöldið fyrir leik. Það var bara mjög jákvætt,“ sagði Stefán og fór ekki leynt með óánægju sína yfir því að KR skyldi missa niður 2:0 forystu.
Óskar Örn afgreiddi gömlu félagana
Leikurinn byrjaði með miklum látum og Thomasz Stolpa, framherji Grindvíkinga, brenndi af í dauðafæri strax á 2. mínútu leiksins. Aðeins tveimur mínútum síðar lá knötturinn í netinu hjá Grindvíkingum eftir vítaspyrnu Björgólfs Takefusa sem reynst hefur KR-ingum mikill gullkálfur eftir slaka byrjun í vor. Magnús Þórisson dæmdi vítaspyrnu á miðvörðinn, Marinko Skaricic, fyrir að handleika knöttinn. Vesturbæingar fylgdu þessari draumabyrjun eftir og Gunnar Örn Jónsson bætti marki við á 11. mínútu með góðu skoti eftir hornspyrnu.Suðurnesjamenn lögðu hins vegar ekki árar í bát enda væri það stílbrot af þeirra hálfu og Gilles Ondo skoraði af stuttu færi rétt fyrir leikhlé. Einungis sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þegar staðan var orðin jöfn 2:2. Skaricic bætti þá fyrir vítaspyrnuna og skallaði boltann af krafti í netið eftir hornspyrnu frá Ramsay.
Grindvíkingar héldu hins vegar ekki einbeitingunni og fyrrverandi samherji þeirra, Óskar Örn Hauksson, laumaði sér inn í vítateiginn og sendi boltann snyrtilega í fjærhornið.
Auk vítaspyrnunnar, sem Stefán varði, þá átti Ray Jónsson einnig góða skottilraun á 68. mínútu. Þrumuskot hans af rúmlega 25 metra færi hafnaði í samskeytunum á marki KR. Á síðasta korterinu dofnaði nokkuð yfir leiknum og Grindvíkingar náðu ekki að þjarma frekar að KR-ingum. Svo sem engin furða að þá hafi verið farið að draga af mönnum því leikurinn var hraður og fjörugur. Mikill sómi að þessari viðureign fyrir bæði félögin.
KR 3 Grindavík 2
KR-völlur, bikarkeppni KSÍ, VISA-bikar karla, 8 liða úrslit, fimmtudaginn 24. júlí 2008.Mörk KR: Björgólfur Takefusa 4. (víti), Gunnar Örn Jónsson 11., Óskar Örn Hauksson 55.
Mörk Grindavíkur: Gilles Ondo 42., Marinko Skaricic 53.
Markskot: KR 13 (9) – Grindavík 10 (7)
Horn: KR 8 – Grindavík 2
Rangstöður: Grindavík 1 – KR 1.
Skilyrði: Gola, skýjað og 13 stiga hiti. Völlurinn góður.
Lið Grindavíkur: (4-5-1) Zankarlo Siminic – Ray Anthony Jónsson, Marinko Skaricic, Zoran Stamenic, Jósef K. Jósefsson – Scott Ramsay, Orri Freyr Hjaltalín. Jóhann Helgason (Aljosa Gluhovic 81.), Andri Steinn Birgisson, (Alexander Veigar Þórarinsson 81.), Thomasz Stolpa – Gilles Mbang Ondo.
Gul spjöld: Gluhovic 88. (brot).
Rauð spjöld: Enginn.
Lið KR: (4-4-2) Stefán Logi Magnússon –Skúli Jón Friðgeirsson, Pétur Hafliði Marteinsson, Grétar Sigfinnur Sigurðarson, Guðmundur Reynir Gunnarsson – Gunnar Örn Jónsson (Atli Jóhannsson 69.), Jónas Guðni Sævarsson, Óskar Örn Hauksson (Jordao Diogo 87.) – Guðjón Baldvinsson, Björgólfur Takefusa (Guðmundur Pétursson 67.).
Gul spjöld: Enginn.
Rauð spjöld: Enginn.
Dómari: Magnús Þórisson, Keflavík.
Aðstoðardómarar: Oddbergur Eiríksson og Áskell Þór Gíslason.
Áhorfendur: Rúmlega 1.200.
*Björgólfur Takefusa hefur nú skorað í öllum þremur leikjum KR-inga í bikarkeppninni.