MIKILL samdráttur varð í nýskráningu ökutækja í 13. viku þessa árs miðað við sl. ár að því er samantekt sem Umferðarstofa hefur látið gera um nýskráningu ökutækja sýnir. Mánudaginn 17. mars féll krónan um 8,12%. Í tilkynningu frá Umferðarstofu kemur...

MIKILL samdráttur varð í nýskráningu ökutækja í 13. viku þessa árs miðað við sl. ár að því er samantekt sem Umferðarstofa hefur látið gera um nýskráningu ökutækja sýnir. Mánudaginn 17. mars féll krónan um 8,12%. Í tilkynningu frá Umferðarstofu kemur m.a. fram að þetta sé stærsta gengisfall íslensku krónunnar sem sést hefur á þessu ári en í heildina féll gengi krónunnar um tæplega 20% í mars. Í kjölfarið varð mikill samdráttur í nýskráningu ökutækja í samanburði við árið á undan.

Til 17. mars var heildaraukning nýskráninga árið 2008 26,1% meiri en á sama tíma í fyrra. Frá þeim degi til 18. júlí sl. fækkaði nýskráningum hins vegar um 34,5%. Því má segja að 17. mars sé upphaf mikils samdráttar í nýskráningu ökutækja á þessu ári. Óvænt aukning verður aftur í nýskráningu í 22. og 24. viku. Skýringin er fyrst og fremst nýskráning mikils fjölda bílaleigubíla en margar bílaleigur voru á þessum tíma að endurnýja bílaflotann.