Veitingahúsið Halastjarnan í Öxnadal á sér orðið öflugan aðdáendahóp. Veitingahúsið annast hjónin Sonja Lind Eyglóardóttir og Pavle Estrajher sem búa á Dalvík. Halastjarnan er staðsett um 35 kílómetrum frá Akureyri. Beint á móti staðnum er gististaðurinn Engimýri en Halastjarna er undir Hraundröngum, þeim sögufræga stað.
Fyrir utan staðsetninguna veitir hráefnið einnig Halastjörnunni sérstöðu: „Allt það sem við bjóðum upp á á matseðlinum, kjöt og fiskur, er unnið á staðnum, en við kaupum ekkert tilbúið,“ segir Sonja. „Einnig bjóðum við einungis upp á lífrænt ræktaðan mat og ræktum okkar eigið salat í salatgarðinum.“
Með því að gera út á þessa þætti hefur Halastjarnan komið niður á gull eins og blaðamaður fær að reyna. Staðsetningin er afskaplega falleg og úti er hljótt og kyrrt. Ekta sveitarómantík. Fyrir ofan Halastjörnu er Hraunsvatn, en það hefur verið vinsælt meðal gesta að ganga upp að vatninu til að bæta matarlystina. Einnig veiða Sonja og Pavle í soðið úr vatninu.
Forréttindi að vera í sveit
Ég fæ að smakka dýrindis gæs með gæðavíni sem Halastjarnan flytur inn. Vínið er lífrænt ræktað í Movia í Slóveníu. Bragðið er afar gott, en vínið er búið til úr þrúgum hvítvínsins með aðferð rauðvíns, segir Pavle mér. Ég næ ekki að stoppa það lengi á Halastjörnunni að ég fái að prófa alla 5 réttina sem eru venjulega á boðstólum. Ég fæ að eiga það inni, og kem eflaust aftur eins og svo margir aðrir hafa gert. En hefði ekki verið skynsamlegra að hafa Halastjörnuna nær bænum fyrir þá sem vilja koma aftur?„Ef við værum með staðinn nær Reykjavík væri sjálfsagt meira að gera,“ segir Sonja „En það sem er gaman við þetta núna er að fólk kemur af því það langar að koma. Það vill leggja eitthvað á sig fyrir að vera hérna.“
Áður en Sonja og Pavle fluttust til Dalvíkur bjó Sonja í Reykjavík og vann á veitingastaðnum Við tjörnina. Hún segist fjarlægjast borgina æ meira, eftir því sem hún er lengur í sveitinni: „Það eru forréttindi að fá að búa uppi í sveit og fá að vera sjálfstæður og stjórna sjálfum sér.“
Í vetur var Halastjarnan opin í fyrsta skipti yfir vetrartímann. Það gekk að sögn Sonju vonum framar og var hún ánægð með hvernig til tókst. Veðurguðirnir voru hagstæðir, en þau Pavle brugðu einnig á það ráð að bjóða gestum frá Akureyri upp á far fram og til baka á staðinn og var vel tekið í þjónustuna.
Menningarbragur í Öxnadal
Á laugardaginn verður mikið um að vera í Halastjörnunni en þá opna Marta María Jónsdóttir og Arnaldur Máni myndlistarsýninguna Höfguð í Hlöðunni sem er áföst staðnum. Þar verða í framtíðinni ýmsir menningarviðburðir en þessi nýlunda er partur af breytingum sem Pavle og Sonja gerðu á húsnæðinu í vor, þegar þau stækkuðu Halastjörnuna. Tónleikar, ljóðakvöld og myndlist verður í hlöðunni. Sonja hefur sjálf komið nálægt tónlist en hún söng með hljómsveitinni Fimmtu herdeildinni fyrir nokkrum árum. Og hún vill gjarnan fá rithöfundinn Andra Snæ Magnason til að vera með ljóðakvöld:„Já, ég auglýsi hér með eftir Andra Snæ. Við erum reyndar ekki komin með skemmtigarð hérna ennþá, en það kemur næst. Við Pavle erum einmitt búin að panta að láta skjóta okkur upp í himininn frá Rússlandi eftir að við deyjum. Við stefnum á að brenna upp í himinhvolfinu fyrir ofan Hraundranga,“ segir Sonja og brosir út í annað.
gæsabringa
salt
ólífuolía
timjan
pera
hlynsíróp
ferskur ananas
graslaukur
jarðarber/rifsber
Gæsabringan er lögð í gróft salt í fjórar klukkustundir. Eftir það er saltið hreinsað af og gæsin lögð í ólífuolíu yfir nótt.
Gæsin er tekin úr olíunni, þerruð og sett í reykofn. Í reykofninn eru settar tvær matskeiðar af sagi og hálf matskeið af timjan. Reykt í ofninum í ca 5 mínútur.
Með þessu er borin fram lífrænt ræktuð pera, skorin niður í teninga og sett í hlynsíróp. Einnig ananas, sem er skorinn niður í matreiðsluvél.
Að lokum er ferskt timjan, graslaukur og jarðarber/rifsber sett ofan á gæsina eftir smekk.