[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásta Sigurðardóttir er ein af fáum stelpum sem eru á kafi í rallíþróttinni hér á landi. Hún hefur verið aðstoðarökumaður hjá bróður sínum, Daníel Sigurðarsyni, og saman hafa þau keppt á erlendri grund í sumar. Einnig keppir Ásta sjálf á sínum eigin bíl.

Eftir Hauk Harðarson

haukurh@24stundir.is

„Bróðir minn sá alveg um að koma mér út í þetta. Einn góðan veðurdag mætti hann til mín með galla og tilkynnti mér að ég væri að koma með honum í rallið,“ segir Ásta Sigurðardóttir rallkappi aðspurð hvernig hún leiddist út í íþróttina. Hún og bróðir hennar, Daníel Sigurðarson, urðu Íslandsmeistarar á Mitsubishi Evo 6-bifreið í fyrra og hafa keppt í Englandi í sumar og hefur Ásta verið aðstoðarökumaður hjá bróður sínum.

Líður vel innan um karlana

Ásta er ein af fáum stelpum sem stunda rallíþróttina af kappi hér á landi. „Það er bara hressandi að vera stelpa í þessari íþrótt. Þetta er náttúrlega alger karlaheimur en ég kemst vel af innan um þá. Þetta er mjög skemmtilegt,“ segir Ásta sem hefur alls ekki haft áhuga á bílum alla tíð. „Ég er búin að vera með kærastanum mínum í fjögur ár núna og hann er svona „bílastrákur“. Áður en ég kynntist honum vissi ég ekki hvað bíll var. En það má nú alveg segja að sé dottin í þessa dellu núna þar sem ég er búin að kaupa bíl og er byrjuð að keppa sjálf í þessu sem ökumaður.“

Mitsubishi Evo 9 draumurinn

Ásta stefnir á að halda áfram í rallinu um ókomin ár. „Vonandi höldum við Danni áfram að keppa úti. Ég vona líka innilega að við mætum saman í alþjóðarallið í Reykjavík á Mitsubishi Evo 9-bílnum sem hann á,“ segir Ásta og viðurkennir að bíll Daníels sé draumabíllinn hennar. „Þessi bíll er geðveikur,“ segir hún.

Gaman að keppa í Englandi

Í sumar hafa systkinin lagt land undir fót og tekið þátt í Bresku mótaröðinni í ralli. „Það er enginn smá munur á því að keppa hér heima og úti. Það er allt svo miklu stærra í sniðum og til að mynda eru yfirleitt um 200 bílar skráðir til leiks úti. Það er algert æði að fá að keppa þarna, það er allt miklu fagmannlegra,“ segir Ásta sem undirbýr sig nú af kappi fyrir Skagafjarðarrallið sem fer fram á morgun við Mælifellsdal.
Í hnotskurn
Ásta er aðstoðarökumaður hjá bróður sínum, Daníel Sigurðarsyni, en þau hafa keppt í Englandi í sumar. Hún keppir einnig á Íslandi á sínum eigin bíl, bleikum Jeep Cherokee.