Undanfarin ár hafa borist fréttir af mikilli verðbólgu í Simbabve, nú síðast mældist hún 2,2 milljónir prósenta.

Undanfarin ár hafa borist fréttir af mikilli verðbólgu í Simbabve, nú síðast mældist hún 2,2 milljónir prósenta. Oft hefur mér þótt íslenskir fjölmiðlar fjalla um verðbólguna í þessu fjarlæga landi af frekar mikilli léttúð, jafnvel að það hafi verið gríntónn í umfjölluninni. Þetta hefur mér fundist eiga við um alla fjölmiðla landsins og fjölmiðlar þess fyrirtækis sem ég vinn fyrir eru þar engin undantekning. Ef til vill er þetta eingöngu tilfinning mín og ef til vill er hún röng en hvað sem því líður hef ég orðið vitni að því að fólk nefni þessar tölur sem dæmi um fáránleika.

Verðbólga upp á 2,2 milljónir prósenta virkar eflaust fáránleg og jafnvel hlægileg í eyrum margra en almenningi í Simbabve er síður en svo hlátur í huga. Til samanburðar má geta þess að verðbólgan á Íslandi mældist í síðustu mælingu Hagstofunnar 12,7% og þegar júlímælingin verður gerð opinber í dag má ætla að verðbólgan verði orðin meiri en það.

Engum dylst að mikill bölmóður er í umræðunni um efnahagsmál hérlendis og hversu oft höfum við ekki heyrt að heimili landsins séu að sligast undan verðbólgunni? Verðbólgu upp á 12,7%, sem gæti jafnvel farið í 14% áður en hinn margumtalaði verðbólgukúfur er liðinn hjá. Ímyndum okkur nú að verðbólgan væri 2,2 milljónir prósenta hér á landi. Til þess að setja þessa tölu í samhengi þýðir það að vara sem fyrir ári kostaði 10 krónur kostar í dag 220 þúsund krónur. Almennt verðlag í Simbabve hefur sem sé 22 þúsund faldast á einu ári.

Tvennt getur valdið svona verðbólgu. Annars vegar umtalsvert meiri seðlaprentun en heilbrigt er og hins vegar almennur skortur á öllum vörum. Mér er svo sem ekki kunnugt um hvort það er yfirgengileg seðlaprentun eða skortur á vörum sem veldur ástandinu í Simbabve en báðir þessir þættir geta átt rætur að rekja til óstjórnar. Miðað við þær sögur sem heyrst hafa frá Simbabve er ekki ólíklegt að þar hafi seðlaprentun verið yfirgengileg og að skortur ríki, enda haldast þessir þættir yfirleitt í hendur. Haldist þeir ekki í hendur leiðir verðbólgan yfirleitt til skorts og höfum í huga að honum fylgir oftast mikil eymd og neyðarástand. 2,2 milljóna prósenta verðbólga lýsir engu öðru en eymd.

Við Íslendingar þekkjum mikla verðbólgu enda er ekki nema aldarfjórðungur síðan verðbólgan hér náði 100%. Við bárum gæfu til þess að vinna bug á þeirri verðbólgu en reynslu okkar vegna ættum við að hafa meiri skilning á því ástandi sem ríkir í Simbabve.

Almenningur í Simbabve reynir að gera eins gott úr stöðunni og hægt er – það er mannlegt eðli – og hefur sennilega lítinn áhuga á því hvernig fjallað er um landið í íslenskum fjölmiðlum. En eiga íbúar Simbabve það ekki skilið að við fjöllum um líf þeirra af virðingu?

sverrirth@mbl.is

Guðmundur Sverrir Þór

Höf.: Guðmundur Sverrir Þór