FORSTÖÐUMAÐUR krabbarannsóknastofnunar Pittsburgh-háskóla, Ronald Herberman, segir að fólk eigi ekki að bíða eftir endanlegum niðurstöðum rannsókna um skaðleg áhrif farsímanotkunar heldur grípa strax til varúðaráðstafana, að sögn BBC .

FORSTÖÐUMAÐUR krabbarannsóknastofnunar Pittsburgh-háskóla, Ronald Herberman, segir að fólk eigi ekki að bíða eftir endanlegum niðurstöðum rannsókna um skaðleg áhrif farsímanotkunar heldur grípa strax til varúðaráðstafana, að sögn BBC .

„Við eigum ekki að bíða eftir því að afgerandi niðurstöður liggi fyrir. Betra er að fara varlega en að iðrast eftir á,“ segir Herberman. Börn eigi einungis að nota farsíma í neyðartilfellum og fullorðið fólk eigi að halda símanum sem fjærst höfðinu. Þá ráðleggur hann einnig fólki að skipta reglulega um eyra þegar það notar farsíma.

Herberman segir skoðun sína byggða á óbirtum upplýsingum sem komið hafi fram við frumrannsóknir.

Niðurstöður margra rannsókna á þessu sviði hafa verið misvísandi en sumir vísindamenn vara eindregið við því að lítil börn noti farsíma. Bresk stofnun sem rannsakar tengsl heilbrigðis og farsímanotkunar sagði í fyrra að fyrir lægju vísbendingar um fylgni á milli tíðni krabbameinstilfella og mikillar farsímanotkunar væri búnaðurinn notaður í minnst tíu ár. kjon@mbl.is