FRAMKVÆMDASTJÓRN ÍSÍ lagði í gær blessun sína yfir val sérsambanda ÍSÍ á íþróttafólkinu sem tekur þátt í Ólympíuleikunum sem haldnir verða í Peking í Kína 8.-24. ágúst.

FRAMKVÆMDASTJÓRN ÍSÍ lagði í gær blessun sína yfir val sérsambanda ÍSÍ á íþróttafólkinu sem tekur þátt í Ólympíuleikunum sem haldnir verða í Peking í Kína 8.-24. ágúst. 27 íþróttamenn verða fulltrúar Íslands á leikunum og keppa þeir í fimm greinum – handknattleik, frjálsum íþróttum, sundi, júdó og badminton.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

Spurður hvort þessi fjöldi íþróttamanna sé eitthvað í samræmi við það sem hann reiknaði með sagði Ólafur Rafnsson, forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands: „Já ég get alveg sagt það. Við erum ekki með nema eitt boðsæti en ástæðan er sú að við höfum verið með svo fjölmenna sveit á undanförnum leikum, meðal annars út af handboltalandsliðinu. Við höfum því mætt afgangi varðandi boðsætin. Þetta er glæsilegur hópur sem við sendum út,“ sagði Ólafur.

Á tímabili leit ekki út fyrir að Ísland ætti marga keppendur á leikunum en þeim hefur fjölgað mjög síðustu vikurnar. ,,Það voru einhverjir að fara á taugum varðandi þetta en eins og við bentum á þá var mikið um úrtökumót framundan. Við hefðum getað séð fram á að handboltalandsliðið kæmist ekki og færri sundmenn en þetta var raunhæfur möguleiki og ég hafði fulla trú á mínu fólki,“ sagði Ólafur.

Erfitt fyrir smáþjóð að setja háleit markmið

Ólafur segir að það sé erfitt að setja háleit markmið hjá svona smáþjóð eins og Íslandi.

,,Í gegnum tíðina hefur okkur tekist að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum og það eru ekki allar þjóðir sem státa af því. Fyrst og fremst væntum við þess að allir geri sitt besta og verði í sínu besta formi. Við vitum að það getur í sumum tilvikum leitt til verðlaunasætis og ég vona innilega að svo verði. Handboltalandsliðið hefur til að mynda burði til að vinna verðlaun enda hefur það unnið allar þær þjóðir sem það keppir við. Örn Arnarson er með bæði getu og sigurreynslu í sundinu til að ná langt og við erum með íþróttafólk sem hefur að undanförnu bætt sig mjög mikið. Gott dæmi um það er Ásdís Hjálmsdóttir,“ sagði Ólafur.

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, velur endanlegan 14 manna hóp sinn fyrir Ólympíuleikana í næstu viku.

Í hnotskurn
» Í sundi keppa Árni Már Árnason, Erla Dögg Haraldsdóttir, Hjörtur Már Reynisson, Jakob Jóhann Sveinsson, Ragnheiður Ragnarsdóttir, Sarah Blake Bateman, Sigrún Brá Sverrisdóttir og Örn Arnarson.
» Í frjálsum keppa Ásdís Hjálmsdóttir, Bergur Ingi Pétursson og Þórey Edda Elísdóttir.
» Ragna Björg Ingólfsdóttir keppir í badminton og Þormóður Jónsson í júdó.