Sullað Meistarinn, Björgvin Sigurbergsson úr Keili, er sposkur á svip eftir að hafa sullað í löngu pútti á tíundu flöt. Hann endurtók leikinn síðar.
Sullað Meistarinn, Björgvin Sigurbergsson úr Keili, er sposkur á svip eftir að hafa sullað í löngu pútti á tíundu flöt. Hann endurtók leikinn síðar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BJÖRGVIN Sigurbergsson úr Keili hóf Íslandsmótið í höggleik, sem hófst í Vestmannaeyjum í gær, með glans og er með þriggja högga forystu eftir fyrsta dag.

BJÖRGVIN Sigurbergsson úr Keili hóf Íslandsmótið í höggleik, sem hófst í Vestmannaeyjum í gær, með glans og er með þriggja högga forystu eftir fyrsta dag. Heiðar Davíð Bragason er annar og voru þeir tveir einu kylfingarnir sem náðu að leika völlinn undir pari í gær. Í kvennaflokki er Eygló Myrra Óskarsdóttir úr Oddi einnig með þriggja högga forystu á Tinnu Jóhannsdóttur úr Keili en Eygló Myrra lék á þremur höggum yfir pari.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson skuli@mbl.is

„Ég er mjög ánægður með hringinn hjá mér. Ég byrjaði reyndar á tveimur skollum en þegar ég byrja á skolla líður mér alltaf vel. Það er svo merkilegt að mínir bestu hringir byrja flestir á skolla. Þetta er leikplanið hjá mér,“ sagði Björgvin léttur í bragði í samtali við Morgunblaðið eftir hringinn í gær. Hann lauk leik á fjórum höggum undir pari og verður það að teljast mjög gott miðað við veðrið sem var þegar hann spilaði.

Björgvin hóf leik klukkan 8.10 í gær og þá var veður leiðinlegt, talsvert sterkur vindur og „svo sletti hann úr sér mjög reglulega, en það hefur ekkert rignt eftir að ég lauk leik,“ segir Björgvin.

Oft er talað um það að menn verði að vera grimmir að ná í fugla á fyrri níu holunum í Eyjum. Björgvin var á einu höggi yfir pari eftir fyrri níu holurnar.

„Ég fékk tvo fugla á fyrri níu!“ segir hann spurður hvort hann hafi verið að afsanna þessa kenningu. „Seinni níu voru flottar hjá mér, það má segja að þetta hafi allt gengið ágætlega, en það er orðið langt síðan ég hef sullað svona mörgum tíu metra púttum í. Ég gerði það á 10., 11. og 12. holu og fékk fugl á þær allar, það var rosalega ljúft.

Völlurinn er alveg til fyrirmyndar í alla staði. Hann er alveg frábær, flatirnar rennisléttar og flottar. Alls ekki of hraðar í dag, bara alveg passlegar,“ segir Björgvin, sem fékk tvo fugla til viðbótar áður en yfir lauk, á 15. og 16. holu og lauk því síðari níu holunum á fimm höggum undir pari.

Betra en ég hafði gert mér vonir um

„Satt best að segja er þetta betra en ég hafði gert mér vonir um. Ég hafði gert mér vonir um fyrir fyrsta daginn að vera eitthvað nálægt parinu og eftir fyrstu tvær holurnar var ég búinn að segja við sjálfan mig að það yrði bar ansi gott að enda á tveimur yfir pari. Svo fór ég í gírinn og var bara ansi góður,“ sagði Björgvin.

Heiðar Davíð Bragason úr GR er í öðru sæti, þremur höggum á eftir Björgvini. Hann var á parinu eftir fyrri níu holurnar og var kominn þremur höggum undir par eftir sextán holur með því að fá fugla á 11., 12. og 16. braut. Hann paraði næstsíðustu holuna en síðan kom skrambi (+2) á síðustu holunni þannig að í hann lauk leik á einu höggi undir pari og hugsar lokaholunni örugglega þegjandi þörfina næstu þrjá dagana.

Íslandsmótið er langt og menn þurfa því að sýna þolinmæði og ekki gefast upp þó móti blási. Hlynur Geir Hjartarson, GK, byrjaði á þremur skokkum en vann sig út úr þeim vanda og lauk leik á pari. Svipaða sögu er að segja af Sigurpáli Geir Sveinssyni, GKj, sem var þrjá yfir eftir níu en lauk leik á einu höggi yfir pari.

Eygló Myrra endaði illa

Eygló Myrra var sjóðandi heit í gær, var á einu höggi undir pari eftir fjórar holur en tvo yfir eftir átta. Hún náði tveimur fuglum, á 11. og 12. braut, og var komin á parið. Skolli fylgdi í kjölfarið, á þrettándu, síðan tvö pör og svo afleitur endasprettur þar sem hún fékk þrjá skolla á síðustu þremur holunum og lauk leik á fjórum yfir pari. Eygló Myrra var eini keppandinn í kvennaflokki sem komst í gegnum fyrsta hringinn án þess að fá skramba (+2) eða þaðan af verra skor.

Tinna byrjaði hins vegar illa, fékk skramba á fyrstu holu og líka þá næstu og var því komin fjórum höggum yfir par eftir tvær holur. Ekki gæfuleg byrjun. En hún gafst ekki upp, fékk tvö pör, skolla og enn einn skrambann. Þá var hún komin á auðveldustu holu vallarins, þá áttundu, og fékk fugl þar og var sex yfir pari. Því hélt hún allt þar til á 17. holu að hún fékk skolla og lauk leik á sjö höggum yfir pari.

Þrír kylfingar koma síðan á níu höggum yfir pari, eða fimm höggum á eftir Eygló Myrru. Þetta eru Íslandsmeistarinn úr Mosfellsbænum, Nína Björk Geirsdóttir, Ásta Birna Magnúsdóttir úr GK og Andrea Ásgrímsdóttir frá Akureyri.

Staðan í Eyjum

Meistaraflokkur karla

Björgvin Sigurbergsson, GK 66 (-4)

Heiðar Davíð Bragason, GR 69 (-1)

Ólafur Björn Loftsson, NK 70

Sigmundur Einar Másson, GKG 70

Örn Ævar Hjartarson, GS 70

Axel Ásgeirsson, GR 70

Hlynur Geir Hjartarson, GK 70

Kristján Þór Einarsson, GKj 70

Stefán Már Stefánsson, GR 71

Sigurpáll Geir Sveinsson, GKj 71

Guðjón H. Hilmarsson, GKG 71

Ólafur H. Jóhannesson, GS 71

Birgir Guðjónsson, GR 72

Hrafn Guðlaugsson, GR 72

Ingi Rúnar Gíslason, GKj 72

Auðunn Einarsson, GK 73

Pétur Óskar Sigurðsson, GR 73

Bjarni Sigþór Sigurðsson, GS 74

Júlíus Hallgrímsson, GV 74

Pétur Freyr Pétursson, GR 74

Nökkvi Gunnarsson, NK 74

Tómas Freyr Aðalsteinsson, GKB 74

Sigurður Pétursson, GR 74

Andri Már Óskarsson, GHR 74

Hjalti Atlason, GSE 74

Ottó Sigurðsson, GR 74

Þorsteinn Hallgrímsson, GV 74

Meistaraflokkur kvenna

Eygló Myrra Óskarsdóttir, GO 74

Tinna Jóhannsdóttir, GK 77

Ásta Birna Magnúsdóttir, GK 79

Nína Björk Geirsdóttir, GKj 79

Andrea Ásgrímsdóttir, GA 79

Hanna Lilja Sigurðardóttir, GR 80

Valdís Þóra Jónsdóttir, GL 80

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK 80

Ragnhildur Sigurðardóttir, GR 81

Helena Árnadóttir, GR 82

Ragna Björk Ólafsdóttir, GK 82

Þórdís Geirsdóttir, GK 82