Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

GERA má ráð fyrir að norðan heimskautsbaugs sé að finna um 90 milljarða olíutunna eða um 13% af olíubirgðum heims og nær þriðjunginn af jarðgasi sem ekki hefur verið kortlagt, að sögn Jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna, USGS, í gær.

Fyrirhugaðar boranir í grennd við norðurskautið eru umdeildar en umhverfissamtök óttast áhrif olíuleitar á lífríkið á svæðinu.

Spáð er að vegna hlýnandi loftslags muni hafís í grennd við norðurheimsskautið minnka mjög á næstu áratugum og hægt verði að sigla yfir skautið að sumarlagi. USGS segir að líta megi svo á að hægt sé að vinna umrædda olíu og gas með þeirri tækni sem menn ráða nú yfir. Ekki er þó lagt mat á kostnaðinn við að vinna bug á ýmsum hindrunum eins og vandkvæðum vegna íshellu sem þekur mikinn hluta svæðisins eða hafdýpis sem sums staðar er mikið.

Umfangsmesta rannsóknin

Um 84% af þeirri olíu og gasi sem áætlað er að finnist á svæðinu er á sjávarbotni en mikið af þeim lindum er svo nálægt landi að þær falla undir lögsögu ríkja í grenndinni. Um er að ræða niðurstöður fjögurra ára rannsókna og er þetta umfangsmesta mat sem gert hefur verið á auðlindunum. „Áður en við getum tekið ákvörðun um nýtingu olíu og gaslinda okkar í framtíðinni og í því sambandi ákvarðanir um verndun tegunda í útrýmingarhættu, verndun samfélaga frumbyggja og plánetunnar okkar verðum við að vita hvað er þarna til staðar,“ sagði Mark Myers, yfirmaður USGS.