Víkverji er ekki hrifinn af skákboxi, sem nú ryður sér til rúms. Þarna er um of ólíkar greinar að ræða til þess að hægt sé að skella þeim saman, enda koma menn stundum svo vankaðir úr boxinu að taflmennska þeirra er hvorki fugl né fiskur.

Víkverji er ekki hrifinn af skákboxi, sem nú ryður sér til rúms. Þarna er um of ólíkar greinar að ræða til þess að hægt sé að skella þeim saman, enda koma menn stundum svo vankaðir úr boxinu að taflmennska þeirra er hvorki fugl né fiskur. Það er niðurlægjandi fyrir skáklistina og ætti ekki að vera neinum skemmtun. Gott box og góð taflmennska eiga að vera í sitt hvoru horninu og halda sig þar.

Víkverji hefur átt leið um vegaframkvæmdir á Vesturlandsvegi, þar sem Mosfellsbæ sleppir. Víkverja finnst alveg með ólíkindum að stuttir malarspottar sem lagðir eru vegna framkvæmdanna skuli vera svo holóttir og ójafnir og raun ber vitni. Er framkvæmdaaðilanum virkilega ofraun að hafa þessa spotta slétta og greiðfæra?

Björgvin Halldórsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson eru þessa dagana fastir ferðafélagar Víkverja. Þar er á ferðinni fágaður söngur og Víkverji verður að játa það á sig að taka stundum undir með höfðingjunum. En bara þegar enginn heyrir til. Milli þessara stórmeistara söngsins hlustar Víkverji á upplestur Gísla Halldórssonar á Góða dátanum Svejk eftir Jaroslav Hasek. Hvílík veizla! Víkverji skellir oft upp úr og er svo kominn á leiðarenda áður en hann veit af. Góð hljóðbók er ekki síður heppilegur bílfélagi en góður söngvari.

Stundum fer sóðaskapur manna afskaplega í taugarnar á Víkverja. Ekki að hann hreyki sér af því að ganga alltaf fyrirmyndarvel um. En sígarettustubbar og tyggjóklessur við annað hvert fótmál eru of mikið. Um daginn ók Víkverji eftir Miklubrautinni, þegar ökumaðurinn á undan sveiflaði hendinni út um gluggann og viti menn bréf utan af súkkulaðistykki skall á framrúðu Víkverja. Víkverji flautaði en sóðinn á undan lét sér hvergi bregða heldur ók ótrauður áfram.