Eftir Kristján Jónsson
kjon@mbl.is
SVETOZAR Vujacic, lögmaður Radovans Karadzic, segir í viðtali við fréttavef þýska tímaritsins Der Spiegel að skjólstæðingur sinn hafi ætlað að gefa sig fram við serbnesk stjórnvöld á næsta ári. Þá hefði hann getað varið sig sjálfur fyrir serbneskum dómstóli í stað þess að verða sendur til Haag og látinn svara til saka fyrir ICTY, alþjóðlega refsidómstólnum sem tekur fyrir afbrot framin í gömlu Júgóslavíu.
Sú aðferð Karadzic að skipta bókstaflega um ham og láta talsvert á sér bera undir falska nafninu Dragan David Dabic virðist hafa orðið til að kæfa allar grunsemdir. Enn er óljóst hvernig hann komst yfir fölsk skilríki og hver Dabic var.
„Dabic“ var tíður gestur á lítilli krá í Belgrad, Luda Kuca [Vitleysingahælinu], þar sem hann lék eitt kvöldið af snilld lag á þjóðlegt hljóðfæri, gusle, og söng. Á veggnum voru myndir af honum og Ratko Mladic, yfirhershöfðingja Bosníu-Serba 1992-1995. Grannar Karadzic segja að hann hafi líklega átt ástkonu sem kölluð var Mila en annars er fátt vitað um hana. Sumum fannst hann hafa yfir sér undarlega áru, jafnvel áru heilags manns. Hundruð manna sóttu fyrirlestra hans þar sem hann gaf m.a. sérfræðiráð um kynlífsvandamál og aðra erfiðleika sem hann sagði að stöfuðu af „truflunum á skammtafræðilegri orku“ í fólki.
Lítill áhugi Vesturveldanna
Fréttamaður BBC sagði árið 2005 að sést hefði til Karadzic nálægt borginni Foca „en það var enginn vilji til þess í London eða Washington að hætta lífi breskra eða bandarískra útsendara við að reyna að klófesta hann“ eða Mladic.Mladic veitti leyniþjónustumönnum upplýsingar um hvar Karadzic héldi sig, að sögn breska blaðsins Daily Tele graph. Með þessu vildi hann vinna tíma í samningaviðræðum um eigið framsal, segir blaðið sem vitnar í ónafngreinda, þýska leyniþjónustumenn. Mladic vill fremur koma fyrir rétt í Belgrad en Haag; hann veit að Serbar líta margir enn á hann sem hetju.
Í hnotskurn
» Geðlæknirinn og grænmetisætan Karadzic stundaði m.a. framhaldsnám í Næstved í Danmörku 1970 og 1974-1975 í New York.» Er Karadzic horfði eitt sinn á eldana í Sarajevo úr fjarska, meðan á umsátrinu stóð, rifjaði hann upp 20 ára gamalt ljóð eftir sjálfan sig: „Ég heyri fótatak hörmunganna. Borgin brennur.“