Gunnar Birgisson
Gunnar Birgisson
Tátólógían íbúalýðræði þýðir venjulega að borgarar taki virkan þátt í stjórnmálum en sú þátttaka er á ábyrgð stjórnmálamanna.

Tátólógían íbúalýðræði þýðir venjulega að borgarar taki virkan þátt í stjórnmálum en sú þátttaka er á ábyrgð stjórnmálamanna. Samfylkingin í Hafnarfirði ber ábyrgð á því að stöðva stækkun álversins í Straumsvík en ekki íbúar bæjarfélagsins þótt þeir hafi með aðeins sjónarmun fellt tillögu um stækkunina í kosningum sem í þokkabót klauf bæjarfélagið í herðar niður. Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í Kópavogi ber sömuleiðis ábyrgð á því að fara að óskum íbúa á Kársnesi um að hætta við stækkun hafnar og aukningu á hafnsækinni starfsemi og atvinnusvæði. Skipulagsvaldið er í höndum bæjarstjórnarinnar og þar með ábyrgðin. Því nær hugtakið íbúasamráð betur yfir það að gera íbúum kleift að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanir í skipulagsmálum. Slík tilhögun greiðir fyrir sátt um stefnu og framkvæmdir og eykur þar með skilvirkni. Forsenda fyrir því að almenningur myndi sér skynsamlega skoðun á nýjum áformum um skipulag á Kársnesi er að hugmyndirnar séu rækilega kynntar. Jafnframt er íbúum auðveldað að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum. Þannig geta þeir haft áhrif á mótun umhverfis síns. Svo geta þeir lagt dóm sinn á verk stjórnmálamannanna í almennum kosningum á fjögurra ára fresti. Skipulagshugmyndirnar á Kársnesi taka mið af umræðunni og hafa verið ræddar á sérstökum samráðsfundum með íbúasamtökunum Betri byggð á Kársnesi. Þær voru einnig kynntar með vönduðum hætti á fjölsóttum íbúafundi þar sem fundargestir fóru að lokinni kynningu í rútuferð um svæðið og gátu svo rætt við arkitekta og yfirmenn skipulagsmála í bænum. Loks eru hugmyndirnar kynntar á heimasíðu Kópavogsbæjar, www.kopavogur.is, auk þess sem þeim hafa verið gerð ágæt skil í fjölmiðlum. Íbúasamtökin hafa haft beinan aðgang að skipulagsyfirvöldum og hver sem er getur sent ábendingar sínar til bæjaryfirvalda á Netinu eða með pósti ef svo ber undir. Einfaldara gerist það ekki. Þeir sem kjósa átök frekar en framfarir grafa skotgrafir og brýna hnífa sína. Við teljum ástæðulaust að efna til deilna og viljum heyra sjónarmið sem flestra. Það er lýðræðislegt.

Höfundur er bæjarstjóri í Kópavogi