Óskar Kristinn Júlíusson húsasmíðameistari fæddist í Reykjavík 20. febrúar 1919. Hann lést hinn 18. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru María Símonardóttir, f. á Bjarnastöðum í Ölfusi 1894, d. 1983, og Júlíus Gottskálk Loftsson múrari, f. á Krossi í Ölfusi 1892, d. 1970. Systkini Óskars eru Lovísa, f. 1916, d. 1989, og Alfreð, f. 1930.

Eiginkona Óskars er Þórunn Sveinbjarnardóttir, f. í Reykjavík 23. apríl 1921. Börn þeirra eru Gunnar S. arkitekt, f. 18. maí 1944, kvæntur Guðfinnu Finnsdóttur, Kristjana hjúkrunarfræðingur, f. 22. ágúst 1948, maki Magnús Tryggvason, og Ingi vélfræðingur, f. 15. maí 1958, kvæntur Þórönnu Tryggvadóttur. Barnabörnin eru 8 og barnabarnabörn 11.

Óskar nam tvær iðngreinar, húsasmíði og skipasmíði. Hann vann á yngri árum sem skipasmiður en lengstan hluta starfsævi sinnar sem verkstjóri í Völundi.

Útför Óskars fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Í dag kveðjum við tengdaföður minn, Óskar Kristin Júlíusson, á 90. aldursári.

Óskar fæddist í skugga spænsku veikinnar. En hann fæddist í kufli eins og hann sagði sjálfur sem var talið mikið gæfumerki. Og Óskar var gæfumaður.

Hann tók vel á móti mér er við Ingi rugluðum saman reytum og fluttum í kjallarann hjá þeim í Álfheimunum. Alltaf tilbúinn til að aðstoða ef eitthvað var. Eins kynntist ég Óskari vel í Skorradalnum, þar sem við vorum mikið með börnin okkar. Þaðan eigum við margar góðar minningar, minningar um gleði og samkennd, þar sem fjölskyldan kom saman og hlóð batteríin í yndislegu umhverfi. Ég held að hann hafi hvergi frekar viljað vera.

Óskari féll aldrei verk úr hendi, hann gekk fumlaust til verka og manni fannst hann gera alla hluti fyrirhafnarlaust og öllu skilaði hann af sér óaðfinnanlegu. Hann var traustur maður, það var hægt að treysta því að það sem hann sagði, það stóð.

Hann byggði fjölskyldunni fallegt heimili í Álfheimum og uppi í sumarbústað byggði hann allt frá grunni og munu verk hans bera honum vitni um ókomna tíð. Útskurður var m.a. hans áhugamál og hann hafði ótrúlega hæfileika, sem mörg listaverkin bera vitni um.

Ég er heppin að hafa átt Óskar sem tengdaföður og að börnin mín áttu hann fyrir afa. Hlýja hans í þeirra garð gleymist ekki.

Það er erfitt að vera svona langt í burtu og geta ekki fylgt honum í dag, en við kveðjum Óskar með söknuði og virðingu.

Þóranna.

Nú kemur að kveðjustund. Hann afi hefur kvatt þennan heim. Þegar ég skrifa þessi orð virðist það mjög óraunverulegt að hann taki ekki á móti mér opnum örmum þegar ég kem heim. Hvernig getur hann sem alltaf hefur verið til verið farinn? Það er huggun harmi gegn að hvíldin var honum kærkomin. Eftir standa óteljandi minningar sem alltaf munu fylgja mér. Hann afi var traustur og vænn og lét manni alltaf líða vel í návist sinni. Hann þreyttist aldrei á því að segja söguna af því hvernig hann kynntist henni ömmu. Ást þeirra lýsti upp hversdagsleikann.

Missirinn er því mikill og enginn sem getur fyllt í skarðið. Ég kveð þig hér með elsku afi, þangað til við hittumst aftur.

Þórunn.

Við kveðjum kæran bróður og föðurbróður, Óskar Kristin Júlíusson, með hlýhug og þakklæti.

Minningarnar um hann eru margar og rifjast þær upp hver á fætur annarri þegar komið er að kveðjustund.

Tengsl bræðranna, Óskars og Alfreðs, voru náin enda bjuggu þeir alla tíð á sama stað. Fyrst á Sólvallagötunni í foreldrahúsum þar sem Óskar og fjölskylda leigðu efri hæðina og Alfreð og fjölskylda kjallarann. María og Júlíus, foreldrar þeirra, sem áttu húsið, bjuggu svo á miðhæðinni. Þetta var hlýlegt samfélag þar sem þrjár kynslóðir bjuggu. Svo fengu bræðurnir saman lóð í Álfheimum 7 þar sem þeir byggðu og fluttu inn árið 1960, Óskar og fjölskylda á efri hæðinni og Alli og fjölskylda á þeirri neðri. Þau voru ófá handtökin sem Óskar lagði til við byggingu hússins.

Óskar var húsasmíðameistari að mennt. Hann var alltaf að smíða og var hann mikill hagleiksmaður í höndunum og var útskurður hans yndi, sérstaklega eftir að hann lét af störfum. Margir fallegir munir eru eftir hann, bæði heima og í sumarbústaðinum þeirra Unnu í Skorradalnum sem var þeirra sælureitur. Óskar vann allt sitt líf hjá Völundi. Hann hafði líka stórt smíðaherbergi í Álfheimunum þar sem hann meðal annars smíðaði báta og hraðbáta sem voru sannkölluð listasmíð og sjást þeir enn á Þingvallavatni og Skorradalsvatni.

Frá mörgu skemmtilegu er að minnast frá uppvaxtarárum okkar í Álfheimunum eins og kvöldkaffinu þegar setið var yfir skemmtilegum sögum og glensi, eins og honum var svo tamt. Margar ferðirnar voru farnar í samfloti þar sem systkinin þrjú, Lúlla, Óskar og Alli, ásamt foreldrum og fjölskyldum þeystu í Þrengslin í berjamó eða bara um Reykjanesið til að skoða og setjast út og fá sér hressingu. Í minninguni var hann alltaf hamingjusamur maður með Unnu eiginkonu sinni og fjölskyldu, tryggur og glaður.

Kæra Unna og fjölskylda, megi hann sem öllu ræður gefa ykkur styrk í sorginni.

Alfreð og dætur.

Ég vil minnast elskulegs móðurbróður míns með örfáum orðum. Óskar var ákaflega traustur og vandaður maður. Hann var mjög hagur smiður og ég man vel hvað vatnabátarnir voru fallegir sem hann smíðaði við frumstæð skilyrði í kjallarnum hjá sér. Seinna skar hann í tré svo falllega gripi að varla verður betur gert.

Alltaf var notalegt að koma í heimsókn til Óskars og Unnu hvort sem var í Álfheimana eða í sumarbústaðinnn, hlýhugurinn og ástúðin voru svo innileg. Enginn getur flúið örlög sín og nú er komið að kveðjustund en eftir lifir minningin um góðan dreng.

Ég vil senda Unnu, börnunum þeirra og fjölskyldum innilegustu samúðarkveðjur frá okkur Jónu.

Júlíus Már Þórarinsson.