Mikill árangur hefur náðst á Landspítalanum við að stytta biðlista eftir hjartaþræðingum og er hann nú 17 prósentum styttri en hann var í maímánuði í fyrra samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu.

Mikill árangur hefur náðst á Landspítalanum við að stytta biðlista eftir hjartaþræðingum og er hann nú 17 prósentum styttri en hann var í maímánuði í fyrra samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu. Nú bíða 194 eftir hjartaþræðingu, af þeim höfðu 69 beðið lengur en þrjá mánuði samanborið við 119 í maí í fyrra.

Mikil fjölgun aðgerða

Teknar voru saman upplýsingar um hjartaþræðingar fyrir tímabilið janúar til maí á þessu ári og í fyrra. Í ljós kom að á þessu tímabili í fyrra voru gerðar 143 hjartaþræðingar að meðaltali á mánuði samanborið við 163 fyrir sama tímabil í ár. Enginn er nú á biðlista eftir bráðahjartaþræðingu og enginn sem bíður eftir kransæðarvíkkun hefur beðið lengur en þrjá mánuði.

Ný vinnubrögð að skila sér

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra segir að ásamt auknum fjármunum og höfðinglegum framlögum úr styrktarsjóði Jónínu S. Gísladóttur megi þakka þennan árangur nýrri vinnutilhögun á Landspítalanum. „Það hefur verið meiri samvinna við fólkið sem starfar á vettvangi og það er ástæða til að þakka starfsfólki Landspítala, nýjum stjórnendum, styrktarsjóðnum og nefnd Vilhjálms Egilssonar fyrir góðan árangur,“ segir hann og bætir því við að ekkert gerist af sjálfu sér.

elias@24stundir.is