Mugison á Nasa Tónlistarmaðurinn góðkunni Mugison er kominn aftur á Klakann eftir að hafa troðið upp á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku fyrr í mánuðinum. Mugison skemmtir gestum Nasa við Austurvöll með leik og söng í kvöld. Húsið verður opnað kl.

Mugison á Nasa

Tónlistarmaðurinn góðkunni Mugison er kominn aftur á Klakann eftir að hafa troðið upp á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku fyrr í mánuðinum. Mugison skemmtir gestum Nasa við Austurvöll með leik og söng í kvöld. Húsið verður opnað kl. 22:30 og er aðgangseyrir 1.000 krónur. Hægt er að kaupa miða í forsölu á vefsvæðinu

midi.is.

Tónleikar í íbúð

Tónlistarhópurinn Njúton heldur allsérstaka tónleika í lítilli íbúð á Grettisgötu 18 í Reykjavík sunnudaginn 27. júlí kl. 16. Aðgangseyrir er 1.500 kr. en 1.000 fyrir nemendur, aldraða og öryrkja. Njúton verður einnig á ferð í Ketilhúsinu á Akureyri í dag kl. 12.

Til heiðurs Joni Mitchell

Söngkonan María Magnúsdóttir spreytir sig á lögum Joni Mitchell á tónleikum á Jómfrúnni á laugardag kl. 15. Þetta eru sjöundu og síðustu tónleikarnir í sumartónleikaröð veitingahússins. Leikið verður utandyra ef veður leyfir. Aðgangur er ókeypis.

Lífrænn dagur á Sólheimum

Lífrænn dagur verður á Sólheimum í Grímsnesi laugardaginn 26. júlí. Kokkarnir góðkunnu Beggi og Pacas matreiða og selja góðgæti úr lífrænt ræktuðu hráefni í kaffihúsinu Grænu könnunni frá kl. 13. Á Rauða torginu verður kynning á lífrænt ræktuðu grænmeti og trjáplöntum. Þá verða tónleikar með Ragga Bjarna og Þorgeiri Ástvaldssyni í kirkjunni kl. 14 en þeir eru hluti af Menningarveislu Sólheima.