TÓNLISTARHÓPURINN Njúton kemur fram á hádegistónleikum á morgun í Ketilhúsinu á Akureyri og frumflytur tvö ný verk auk þriggja annarra. Nýju verkin eru 4 eftir Þráin Hjálmarsson, nema við LHÍ, og Estremadura eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, liðsmann hljómsveitarinnar Amiinu. Hin verkin sem flutt verða eru Pes eftir Þuríði Jónsdóttur, Stjörnumuldur eftir Karólínu Eiríksdóttur og Arnold eftir Ragnhildi Gísladóttur.
Berglind María Tómasdóttir, listrænn stjórnandi Njúton, segir að greina megi áhrif Amiinu í verki Maríu. Á tónleikunum leikur með Njúton önnur Amiinu-kona, Hildur Ársælsdóttir, á sög. Tónleikarnir eru hluti af Listasumri á Akureyri og hefjast kl. 12.
Á sunnudaginn heldur Njúton tónleika heima hjá Berglindi í Reykjavík, á Grettisgötu 18, og verða þar flutt verk eingöngu eftir konur. „Við erum með sérstakt kvennaverkefni til styrktar Hlaðvarpanum, menningarsjóði kvenna á Íslandi,“ segir Berglind. Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Ingibjörgu Magnadóttur myndlistarmann og eru áhugasamir hvattir til að banka upp á á Grettisgötunni hjá Berglindi. Hún lofar persónulegri stemningu, áheyrendur verði í mikilli nálægð við hljómsveitina.
Hversdagslegir hlutir fá líf
Aftur til Akureyrar. Á morgun kl. 17 verður opnuð myndlistarsýning tveggja þýskra kvenna, Önnu K. Mields og Lindu Franke, í Deiglunni. Hún ber yfirskriftina The Living House og þema hennar er „leyndardómurinn í hversdagslegum hlutum“, að því er segir á vefsíðu Listasumars. „Hvað ef þessir hversdagslegu hlutir fá sitt eigið líf? Er munur á trúnni á hið leyndardómsfulla og yfirnáttúrulega og hátækni og funksjónalisma?“ spyrja Anna og Linda. helgisnaer@mbl.is