Eftir Hlyn Orra Stefánsson hlynur@24stundir.

Eftir Hlyn Orra Stefánsson

hlynur@24stundir.is

„Mér er virkilega brugðið en ég er ánægður með að enginn slasaðist,“ segir Bergur Helgason vagnstjóri, en grunur leikur á að skotið hafi verið úr loftbyssu í rúðu strætisvagns sem hann ók í fyrradag. Í vagninum voru fimm farþegar.

Vagninum var ekið eftir Dalsmára í Kópavogi þegar hann mætti fólksbíl. „Allt í einu heyrist mikill hvellur og rúða sem er rétt fyrir aftan bílstjóraplássið kurlast.“

Ungur maður við gluggann

Ungur maður sat við gluggann sem skotið var á. Miklar sprungur komu í glerið. Rúðan brotnaði þó ekki inn í vagninn fyrr en ekið var af stað aftur. Maðurinn fékk því ekki glerið yfir sig og hlaut engan skaða af. „En honum var að sjálfsögðu brugðið,“ segir Bergur.

Hliðarglugginn við bílstjórasætið var opinn og hefði skotið lent aðeins framar á vagninum hefði kúlan hafnað í Bergi. „Ég lít þó ekki á þetta sem neitt persónulegt, heldur tel ég að viðkomandi hafi bara verið að reyna að hitta einhvers staðar í vagninn.“

Bergur rak af öryggisástæðum alla farþega aftast í vagninn áður en hann keyrði af stað aftur að endastöðinni í Hamraborg í Kópavogi þar sem farið var yfir málið með lögreglunni. Hann segist telja að skotið hafi verið úr loftbyssu úr bílnum sem mætti vagninum. „Einn farþegi sá blossa frá bílnum. Þetta er eina útskýringin sem við gátum fundið.“

Ástandið versnað mjög

Vinnuaðstæður vagnstjóra hafa versnað mjög á undanförnum mánuðum, segir Bergur, en fyrir nokkrum vikum var ráðist á bílstjóra á sömu leið. Lögregla þurfti að fjarlægja árásarmanninn, en ástæða árásarinnar virðist hafa verið óánægja með aksturslag vagnstjórans.

„Frá síðustu áramótum hefur orðið meira um það en áður að unglingar séu með læti og vinni skemmdaverk í vögnunum og sýni ofbeldisfulla hegðun. Þetta eru gengi unglinga sem eru að reyna að virka stórir strákar,“ segir Bergur.

Skotárásin hefur verið kærð til lögreglu. Hjá henni fengust engar upplýsingar um stöðu málsins.

Í hnotskurn
Vagn með fimm farþegum ók eftir Dalsmára er á hann var skotið. Enginn slasaðist. Talið er að farþegi bíls sem ekið var úr gagnstæðri átt hafi skotið á vagninn.