Gaskútar Skilagjald er frá 2.000 kr. upp í 9.000 kr. eftir stærð kútanna.
Gaskútar Skilagjald er frá 2.000 kr. upp í 9.000 kr. eftir stærð kútanna. — Morgunblaðið/Sverrir
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is „ÞAÐ kemur upp svona faraldur öðru hvoru á sumrin. Menn reyna að skila þessu og fá skilagjald,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

„ÞAÐ kemur upp svona faraldur öðru hvoru á sumrin. Menn reyna að skila þessu og fá skilagjald,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þjófnuðum hefur fjölgað

Töluvert er um að gaskútum sé stolið af tjaldvögnum og gasgrillum í skjóli nætur. Hafa komið upp mörg slík tilfelli í sumar. Viðmælandi Morgunblaðsins hefur lent í því tvisvar með skömmu millibili að kútar séu fjarlægðir af vagni hennar. Geir Jón segir að fá tilvik hafi komið upp um að fólk sé að sniffa gasið að undanförnu, um sé að ræða „krakka sem vantar pening.“

Fólk skilar kútunum á bensínstöðvar og er skilagjald frá 2.000-9.000 kr. eftir stærð og eðli kútanna.

Ingunn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri neytendasviðs hjá N1, segir að fyrirtækið hafi þá reglu að við skil á kútum sé beðið um skilríki og aðeins sé tekið við einum kút í einu. „Við erum alltaf á varðbergi gagnvart þessu ef við sjáum sömu mennina koma aftur og aftur að skila kútum. Við höfum fundið fyrir því hjá okkar viðskiptavinum að þjófnuðum á kútum hefur fjölgað. Við höfum því margítrekað við okkar starfsfólk að fylgjast með og biðja um skilríki í hvert sinn,“ segir Ingunn.

Fólk er hvatt til þess að girða kútana af eða geyma búnað, eins og gasgrill með kútum, úr augsýn til þess að fyrirbyggja þjófnað.