Guðfinna Eydal
Guðfinna Eydal
Guðfinna Eydal skrifar um virkjun Þjórsár: "Ég skora á ráðherra Samfylkingarinnar að lýsa yfir opinberlega hvað afstöðu þeir hafa til þessara virkjana. Það eiga kjósendur ykkar rétt á að vita."

MIKIL umræða fer nú fram um virkjanir hér á landi og vonandi eiga enn fleiri eftir að tjá sig um þessi mikilvægu mál. Þau snerta þjóðina alla en ekki bara Sunnlendinga eins og stundum mætti ætla af umræðum, viðtölum við ráðamenn og skrifum í fjölmiðla. Það er mál þjóðarinnar allrar hvort reisa á þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Virkjanirnar myndu valda gríðarlegum náttúruspjöllum og eyðileggingu á því fallega umhverfi sem við eigum í kringum árnar. Umhverfi Þjórsár ætti fremur að gera að þjóðgarði en að hafa á stefnuskrá að umturna því og skemma það.

Þjórsá, ein fegursta á landsins

Þjórsá er ekki bara lengsta á landsins, heldur er hún ein fegursta á Íslands, með öllum sínum fossum og flúðum, að ekki sé minnst á grónar eyjar. Náttúruperlur eins og Hagaey, fossarnir Búði, Hestafoss og Urriðafoss verða eyðilagðar. Það er óafturkallanlegt. Sýn til jökla, birtan og ljósaspilið við ána eru oft engu lík. Göngu- og reiðleiðir eru einstakar, en spillast. Sú heildstæða sýn sem oft sést með Heklu í bakgrunni er svo sérstök að bera má hana saman við aðra fegurstu staði á Íslandi eins og Þingvelli og Mývatn. Árniðurinn í Þjórsá sem heyrist langt að er hluti af því að gera hana að þeirri stórbrotnu á sem hún er. Ef virkjað er, þagnar áin, vatnið breytir um lit, í staðinn koma bláhvít kyrr uppstöðulón. Áin sem slík deyr. Það má ekki gerast.

Áhrif á ferðamennsku – leiðin inn á hálendið

Gleymum því ekki, að það umhverfi sem um ræðir að spilla er aðalinnkeyrslan inn á hálendi Íslands. Það er ekki sama hvar á að virkja, en það hlýtur að vera ljóst að það er ekki ráðlegt að eyðileggja umhverfi sem er fjölfarið af ferðamönnum og opnar þeim inngönguna inn á hálendið. Fegurðin í kringum Heklu myndi gjörbreytast og ætti það eitt út af fyrir sig að nægja til að láta sér ekki detta í hug að virkja einmitt þarna.

Áhrif á lífríki fiskistofna

Merkileg grein birtist í Morgunblaðinu hinn 7. júlí síðastliðinn eftir Valgeir Bjarnason líffræðing. Hann vekur athygli á atriði sem hefur ekki fengið nóga umræðu, og hann undrast að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi ekki krafist rannsókna á samhengi virkjana og áhrifa þeirra á lífríki sjávar. Valgeir segir m.a.: „Þess vegna tel ég að ekki eigi að ráðast í frekari vatnsaflsvirkjanir fyrr en áhrif stíflugerðar og stöðvunar framburðar ánna hafa verið rannsökuð til hlítar. Það er auðvelt að meta og hafa skoðanir á sýnilegum áhrifum virkjana á landi. Áhrif þeirra á hafið og lífríki þess eru ekki jafn-augljós. Þau verða ekki metin nema með tæknilegum aðferðum. Þessi áhrif geta þó haft mun meiri efnahagslegar afleiðingar en nokkurn órar fyrir“.

Komið hefur fram í fréttum, að hefja á vísindarannsóknir á áhrifum vatnsaflsvirkjana á lífríki sjávar umhverfis landið. Því ber mjög að fagna. Það skyldi þó aldrei vera, að slíkar rannsóknir hjálpuðu okkur náttúruverndarsinnum til að stöðva bæri virkjanir í Þjórsá? Því að ef rétt reynist, að lífríkið sé í hættu, væru virkjanir þjóðhagsleg eyðilegging.

Fólkið vill ekki virkjanir

Nú í efnahagskreppunni koma margir fram á ritvöllinn og kalla á virkjanir. Nú á að vera lag. Tímabundin kreppa má ekki villa mönnum sýn og ýta undir óafturkræft umhverfisslys: að eyðileggja lengstu á landsins sem á að vera okkar stolt og prýði og umturna einni fegurstu og blómlegustu sveit landsins. Fólkið vill ekki virkjanir. Í Fréttablaðinu frá 24. júni kemur fram að tæp 57 prósent svarenda könnunar segist ekki styðja frekari virkjanir á Íslandi. Þá var kreppan komin á fullt. Þjóðin tekur afstöðu og hana undrast margir ráðamenn.

Samfylkingin gefi skýr skilaboð

Margir kusu Samfylkinguna vegna afstöðu hennar í stóriðjumálum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir nýlega að fullkomin einhugur ríki innan þingflokksins um Fagra Ísland. Hver er einhugurinn gagnvart virkjunum í Neðri-Þjórsá? Margir bíða eftir þeirri yfirlýsingu. Svörin hafa ekki verið skýr. Ég skora á ráðherra Samfylkingarinnar að lýsa yfir opinberlega hvaða afstöðu þeir hafa til þessara virkjana. Það eiga kjósendur ykkar rétt á að vita.

Höfundur er sálfræðingur.

Höf.: Guðfinna Eydal