Það ríkir hugmyndafræðileg kreppa í herbúðum Samfylkingarinnar. Í slíku ástandi missa menn kjark til að takast á við grundvallarspurningar í pólitík.
Samfylkingarfólk þorir varla að taka sér orðið einkavæðing í munn án þess að vara sérstaklega við henni. Einkavæðing hefur á sér neikvæðan blæ og skoðanir Samfylkingarinnar sveiflast iðulega í takt við almenningsálitið.
Í Morgunblaðinu í gær var reynt að fá Kristján Möller samgönguráðherra til að svara því hvort til stæði að hleypa öðrum en hinu opinbera að rekstri Flugstoða, Íslandspósts og Keflavíkurflugvallar.
Ráðherrann vildi ekki svara og sendi skilaboð í gegnum aðstoðarmann sinn, Róbert Marshall. Aðstoðarmaðurinn sagði ekki á stefnuskrá ráðherra að selja þessi fyrirtæki.
Ráðherra kýs að ræða þetta ekki frekar efnislega á þessum tímapunkti,“ voru skilaboð Róberts frá Kristjáni Möller.
Við hvað er samgönguráðherra hræddur? Veit hann ekki hver stefna ríkisstjórnarinnar er? Veit hann ekki hver stefna Samfylkingarinnar er? Veit hann ekki hver stefna sín er?
Getur ráðherrann ekki rætt þá grundvallarspurningu í pólitík hvert hlutverk ríkisins eigi að vera?
Innan Sjálfstæðisflokksins og VG er tekist opinskátt á um þessa stefnu. Hvað með Samfylkinguna?