Garðyrkja Hópur fanga á Litla-Hrauni hefur undanfarið fengist við garðyrkju.
Garðyrkja Hópur fanga á Litla-Hrauni hefur undanfarið fengist við garðyrkju. — Morgunblaðið/Ómar
FANGAR á Litla-Hrauni fengu óvæntan glaðning þegar Bolli Thoroddsen varaborgarfulltrúi, sem er við nám í Japan, lét 250 þúsund af hendi rakna til söfnunar fyrir gróðurhúsi á Hrauninu.

FANGAR á Litla-Hrauni fengu óvæntan glaðning þegar Bolli Thoroddsen varaborgarfulltrúi, sem er við nám í Japan, lét 250 þúsund af hendi rakna til söfnunar fyrir gróðurhúsi á Hrauninu. Bolli skrifaði bréf til fanganna þegar hann heyrði af söfnuninni, en hann var fangavörður í sumarafleysingum fyrir ári síðan, „kynntist þar mörgum og eignaðist góða vini, bæði úr hópi fanga og fangavarða“.

Í bréfinu rifjar Bolli upp kynni sín af einstökum föngum og segist hafa gert sér grein fyrir tveimur mikilvægum atriðum eftir dvöl sína. „Í fyrsta lagi, áttaði ég mig á því að í mörgum tilfellum voru það erfiðar og óhagstæðar ytri aðstæður sem urðu til þess að margir ykkar eru á Litla-Hrauni í dag. Þar með er ég ekki að segja að ábyrgðin sé ekki ykkar heldur, að ég er nokkuð viss um að ef ég hefði búið við ákveðnar aðstæður þá hefði ég allt eins gert mín mistök, valið rangan veg. Og það má segja um mjög marga. Á minni fyrstu vakt sagði einn fangavarðanna við mig: „Bolli, hér eru allir jafnir“. Það voru orð að sönnu, og varð ég þess fullviss eftir sumarið.“

Í öðru lagi skrifar Bolli að eftir kynni af föngunum viti hann að þeir geti komist á rétta braut. „En um leið geri ég mér grein fyrir því að það er ekki auðvelt. En með því að sem flestir taki þátt í uppbyggilegum verkefnum eins og að hefja garðrækt og setja upp gróðurhús, halda ljóðasamkeppni, fótboltamót, tónleika, efla félagið ykkar Afstöðu, hjálpa hver öðrum, ég tala nú ekki um ef þið drífið ykkur í nám, þá mun ykkur takast það.“

Bolli sagðist telja að þetta brautryðjendastarf Margrétar Frímannsdóttur á Litla-Hrauni væri ómetanlegt fyrir fanga og þeirra undirbúning undir líf og störf að lokinni afplánun. „Ávinningur þjóðfélagsins er mikill af því að fangar komist á réttan kjöl í lífinu. Það þýðir ekki bara betra líf fyrir þá sjálfa, heldur einnig færri fórnalömb, minni skaða og kostnað við réttargæslukerfið. Þess vegna ættu sem flestir að styðja þetta frumkvæði Margrétar og fanganna á Litla-Hrauni.“

Í hnotskurn
» Fangar á Litla-Hrauni hafa ræktað matjurtir og eru nú að safna fyrir gróðurhúsi. Þeim sem vilja leggja söfnuninni lið er bent á reikningsnúmerið 101-26-171717. Kennitalan er 481203-3330.