Goodbye Norma Jean ... Davíð Þór er litríkari en Marylin.
Goodbye Norma Jean ... Davíð Þór er litríkari en Marylin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir H. Ingólfsson asgeirhi@mbl.is „Þetta verður voðalega mikið einn bær fyrir manni,“ segir Mugison mér, nýkominn til Súðavíkur eftir tæplega þriggja mánaða Evróputúr.

Eftir Ásgeir H. Ingólfsson

asgeirhi@mbl.is

„Þetta verður voðalega mikið einn bær fyrir manni,“ segir Mugison mér, nýkominn til Súðavíkur eftir tæplega þriggja mánaða Evróputúr. „En nokkrir bæir þarna hafa náttúrlegan heilmikinn sjarma, eins og Dublin og þessi pólski bær... sem ég man ekki alveg hvað heitir...“ bætir hann við og við sammælumst um að kalla hann bæinn Evrópu þangað til rétt nafn finnst. En ólíkt því sem var í gamla daga þá var Örn Elías, eins og Mugison heitir réttu nafni, ekki einn á ferð. Davíð Þór Jónsson, Pétur Ben, „eða Bronko del Ben eins og við köllum hann núna,“ og Guðni Finnsson voru með í för allan tímann. „Svo var Addi [Arnar Gíslason] mestallan tímann á trommur, en svo skiptum við honum út af því hann þurfti að fara í barneignafrí, þá kom Egill [Rafnsson] úr Sign síðustu tíu dagana, helvíti gaman að fá alvöru rokktudda,“ bætir Mugison við.

En eftir flakkið er Mugison þó matur efst í huga. „Þeir Guðni Finnsson bassaleikari og Davíð Þór Jónsson píanóleikari eru svona gourmet-blætisgaurar. Ég held við höfum borðað fínt á hverjum einasta degi, indverskt, sushi og eitthvert dóterí. Þetta var örugglega snobbaðasti matartúr sem nokkur hljómsveit hefur farið á í heiminum,“ segir Mugison sem fitnaði ekkert af þessu enda allt saman hollt og gott, „en venjulega þegar maður er einn þá er þetta venjulega bara hammari og pizza.“

„En þetta er búið að vera magnað ferðalag. Við byrjuðum í lok apríl að fara með Queens of the Stone Age og erum búnir að vera að síðan þá, fyrir utan tvær vikur sem við tókum í frí, og höfum farið þvers og kruss um Evrópu,“ segir Mugison sem naut ferðaþreytunnar. „Við tókum 18 tónleika í röð án þess að taka neina pásu, sváfum lítið – og þá er maður orðinn þægilega ruglaður í hausnum. Alltaf að keyra af stað í næsta bæ snemma á morgnana, svo er sándtékk og einhver blaðaviðtöl og svo þurftum við að finna okkur einhvern gourmet-veitingastað og fara svo að spila. Það var orðið helvíti gaman að finna hvað maður var orðinn náttúrulega ruglaður.“

Á vegum úti

Áður hefur verið greint frá því að Mugison semji tónlistina fyrir mynd Walter Salles (sem filmaði m.a. Mótorhjóladagbækur Che Guevara) um tímamótaverk Jack Kerouac, On the Road . En það er eitthvað langt í þá tónsmíð. „Já, þetta er búið að vera á döfinni í tvö ár. Hann virðist vera með einhvern valkvíða, hann Walter Salles. Ég fékk ímeil frá honum í síðustu viku, en ég fæ ímeil frá honum á 2-3 mánaða fresti og þá segir hann að þetta verði tilbúið eftir 2-3 mánuði. Svo getur vel verið að einn daginn verði þetta bara komið út og þessi Gustavo verði búinn með þetta,“ segir hann og á þar við Gustavo Santaolalla ( Brokeback Mountain ), óskarsverðlaunatónskáld, sem er skráður fyrir myndinni á IMDb.com, eitthvað sem virðast vera úreltar upplýsingar.

Mynd Salles er heimildarmynd um þetta skáldverk Kerouac, sem Mugison hlustaði á á hljóðbók. „Ég er búinn að gefast upp á pappírnum. Þessi bítstíll hljómar líka miklu betur en að horfa á hann á pappír. Frumgerðin er úr einhverjum djasspælingum,“ segir hann og vill lítið gefa út á hvernig tónlistin loks verður. „Þessir bítkallar voru undir miklum áhrifum frá djössurunum, ég er enginn rosalegur djasshaus, en ég hef alveg tékkað á þessum óriginölum út af myndinni, en ég held ég fari ekkert að elta það – en það er erfitt að segja það fyrirfram, enda bara búinn að sjá nokkur myndbrot frá Salles.“

En túr þeirra félaga er þó ekki alveg búinn enn. „Við ætlum að halda tónleika á Nasa í kvöld, ákváðum að henda í þetta í skyndi til að klára þetta hérna heima. Við erum búnir að taka 50 tónleika núna á tveimur og hálfum mánuði.“ Og það verður fjölmennara á Nasa. „Báðir trommararnir, þeir Addi og Egill, tromma allan tímann þannig að þetta verður eitthvert dúndursjó,“ segir Mugison um tónleikana, en þeir hefjast kl. hálftólf á föstudagskvöld. Húsið opnar klukkan hálfellefu og miðaverð er þúsund krónur. Fyrst fer sveitin þó í mat til áðurnefndra gourmet-gaura, enda segir Mugison þetta þeirra árshátíð. „Svo förum við og spilum eins og við eigum lífið að leysa.“