ÍRASKIR íþróttamenn verða ekki meðal keppenda á Ólympíuleikunum sem hefjast í Peking í næsta mánuði. Alþjóðaólympíunefndin ákvað þetta í gær og er ástæðan afskipti írakskra stjórnvalda af ólympíunefnd landsins.
Reglur ólympíuhreyfingarinnar kveða á um að pólitískar ráðningar í nefndir séu ólöglegar og ólympíunefnd landsins var kjörin árið 2004 en nefndarmenn, þar á meðal formaður hennar, voru teknir í gíslingu árið 2006 og hefur ekkert til þeirra spurst síðan. Segja stjórnvöld að spilling hafi verið í nefndinni og setti sitt fólk í hana í stað kjörinna fulltrúa.
Írakar ætluðu að senda tvo ræðara, tvo hlaupara, einn bogmann, kraftlyftingamann og júdómann á leikana en af því verður ekki.