Leiðsögukerfi Er hægt að virkja amerískt farsíma–, leiðsögu– og útvarpstæki í Evrópu?
Leiðsögukerfi Er hægt að virkja amerískt farsíma–, leiðsögu– og útvarpstæki í Evrópu? — Morgunblaðið/Jim Smart
Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur svarar fyrirspurnum á leoemm@simnet.is (Ath. bréf geta verið stytt). Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com. ABS-bilun Spurt: Ég er með Daewoo Nubira, árg. 2000. ABS-læsingarvörnin er óvirk.

Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur svarar fyrirspurnum á leoemm@simnet.is (Ath. bréf geta verið stytt). Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á

www.leoemm.com.

ABS-bilun

Spurt: Ég er með Daewoo Nubira, árg. 2000. ABS-læsingarvörnin er óvirk. Byrjaði með því að ABS-kerfið virkaði bara upp að um 70 km hraða, þá kviknaði ABS-ljósið og kerfið varð óvirkt. En virkaði svo aftur á sama hátt eftir næstu gangsetningu. Nú er kerfið alveg hætt að virka og ABS-ljósið lýsir stöðugt. Mér er sagt að einhver hjólnemi sé ónýtur eða sambandslaus, jafnvel að ABS-dælan og/eða ABS-tölvan sé ónýt. Get ég lagfært þetta sjálfur? Er hægt að fá svona ABS-tölvu og hjólnema í partasölum?

Svar: Lýsingin bendir til tvenns konar bilunar: Í fyrstu hefur ljósið kviknað við 70 km hraðamörkin vegna þess að einn eða fleiri tannkransar við hjól (teljarar) eru slitnir. Þegar kerfið hætti alveg að virka hefur bæst við bilun í hjólnema. Í Daewoo og mörgum öðrum Asíubílum er hvorki ABS-dæla né ABS-tölva. ABS-stýringin er innbyggð í vélartölvuna og 2 rafsegullokar (með loftunarnippli) innbyggðir í ABS-hluta höfuðdælunnar. Tölvubúnaðurinn bilar sjaldan en sjálfsagt er hægt að fá vélartölvu á partasölu. Hins vegar hef ég aldrei vitað til þess að hægt sé að ná gömlum ABS-hjólnema heilum úr og tel ólíklegt að partasali myndi reyna það. Nemarnir eru til í umboðinu á hóflegu verði. Áður en lagt er í kaup á nema/nemum þarf að bilanagreina ABS-kerfið í akstri með tölvu sem umboðsverkstæði hafa. Nemarnir eru af mismunandi gerð fyrir aftur- og framhjól og hægri nemi passar ekki vinstra megin eða öfugt. Greiningartölvan sýnir hvaða nemi/nemar eru óvirkir. Ónýta nema verður oftast að brenna eða bora úr. Þegar þeir hafa verið endurnýjaðir mun kerfið virka aftur upp að 70 km hraðamörkunum. Þá þarf að bilanagreina kerfið aftur með tölvunni sem þá sýnir við hvaða hjól tannkrans telur færri púlsa (minni hraða) vegna slits eða annars agnúa. Í bílum með skálabremsur að aftan er tannkransinn áfastur hjólnöf afturhjóls (leguhúsi) sem þýðir að slitinn tannkrans verður ekki endurnýjaður nema með öðru leguhúsi. Að framan er kransinn áfastur ysta hluta driföxuls (rilluöxull) en hvort tveggja ætti að vera fáanlegt á partasölu, þ.e. hjólnöf og driföxull í heilu lagi og er kransinn í lagi ef ekki er sjáanlegt slit á tönnunum.

Frjókornaofnæmi

Ábending: Undanfarið 30-40 daga tímabil mun meira af frjóögnum hafa mælst í andrúmslofti en oft áður. Þeir sem líða vegna frjóagnaofnæmis hafa því ekki átt sjö dagana sæla. Í loftinntaki miðstöðva margra bíla er sérstök sót-, ryk- og frjóagnasía sem þarf að endurnýja, t.d. árlega (sjá handbók). Síurnar fást hjá umboðum auk þess sem N1 á inntakssíur í flesta bíla. Þegar sían teppist minnka loftræsti- og kælingarafköst miðstöðvarinnar. Í þessu sambandi er einnig ástæða til að minna fólk á takkann sem lokar fyrir ytra loftinntak miðstöðvarinnar. Með takkanum, sem oftast er merktur með örvum í hring, myndast lokuð hringrás innilofts. Þennan takka ætti að nota þegar ekið er í jarðgöngum, í gegnum gróðurbelti og/eða mjög nálægt næsta bíl í lest (pústið) og loft mettað ögnum, sóti eða öðrum óhreinindum kemst ekki inn í farþegarýmið. Sé lokað í lengri tíma fyrir útiloft myndast móða innan á rúðum.

Amerískt farsíma-, leiðsögu- og útvarpstæki

Spurt: Ég flutti inn M Benz ML350 (2006) frá USA. Í honum er síma-, áttavita- og leiðsögukerfi sem þeir hjá Öskju (Benz-umboðið) segja að erfitt sé að virkja fyrir Evrópu. Þekkir þú eitthvað til þessa kerfis? Er erfiðleikum háð að virkja þennan búnað fyrir Evrópu?

Svar: Það er yfirleitt ógjörningur – en með fáum undantekningum varðandi síma. Þú finnur ítarlegar upplýsingar um þetta mál á www.leoemm.com. Velur Gagnabanka og leitar í Brotajárni nr. 18.