Magnús Vignir Árnason
Magnús Vignir Árnason
Magnús Vignir Árnason skrifar um efnahagsmál: "Af hverju þurfa íslenskir bankar 15-20% á meðan bankarnir í nágrannalöndum okkar geta rekið sig með 5-10% vöxtum? Eru íslenskir bankastjórar aular?"

KRISTINN H. Gunnarsson skrifar nú grein eftir grein í Moggann til þess að verja þennan krónuræfil, eða það sem eftir er af henni. Krónan er bara til eins nýt og það er að með henni er hægt að halda uppi okurvöxtum og óðaverðbólgu en slíkt kemur sér mjög vel auðvitað fyrir íslensk stjórnvöld sem vinna eingöngu fyrir fámennan hóp manna sem hefur það eitt á stefnuskrá sinni að blóðmjólka íslenskan almenning á meðan hann stendur í lappirnar og getur stritað. Ég er kominn á þá skoðun að allir hérlendir stjórnmálamenn falli undir þennan óhæfa hóp, nema ef vera skyldi Jóhanna Sigurðardóttir. Hennar aðgerðir eru í þá átt að vera almenningi til hagsbóta. Til glöggvunar þá er almenningur í mínum huga fólk sem hefur uppeldi barna sinna sem forgangsverkefni, elur börnin upp sjálft að mestu leyti, skaffar þeim heimili og þá öryggistilfinningu sem það veitir, mætir í vinnuna og þiggur sín laun, borgar af lánum, borgar skyldur og síðast en ekki síst borgar það sína skatta sem ég er ekki viss um að sé endilega takmarkið hjá þeim fámenna hópi fjársjúkra manna sem ríkisstjórn Íslands vinnur til heilla.

Aftur að Kristni H. og hans skrifum. Hann er búinn að gera þá stórkostlegu uppgötvun að við verðum að koma okkur sjálf út úr efnahagsvandanum. Svo þylur maðurinn upp prósentutölur úr alls kyns eldgömlum rannsóknum og segir svo að allsendis sé ekki ómögulegt að sama lögmálið gildi í dag.

Eftirfarandi er úr grein Kristins í Mogganum 21. júlí 2008. „Skýrsla frá HHÍ frá 2003 metur raunvexti um 2,5% hærri að meðaltali á Íslandi, en minni þegar vel gengur og þá 1-2% við þær aðstæður, sem fara svo aftur eftir innlendri hagstjórn.“ Ég segi. Við okurvaxtagreiðendur viljum fá að sjá þessar tölur á gíróseðlunum okkar, ekki heyra um þær í einhverjum draumóra-tilvitnunum en með svona stjórnarlið eins og við sitjum uppi með núna er víst engin von. Fullyrðingar og rök í greinum Kristins eru flest álíka gáfuleg og þegar Pétur Blöndal byrjar að babla. Önnur tilvitnun. „Vaxtalækkun mun færa til verðmæti milli kynslóða. Eldri borgarar munu tapa á vaxtalækkuninni af því að þeir eiga eignir.“ Allt ber að sama brunni, þið eruð að hugsa eingöngu um sjálfa ykkur og ykkar vini. Þú ert væntanlega af þeirri kynslóð, Kristinn, sem fékk húsin sín gefins, er það ekki? Næsta kynslóð á eftir borgaði eftir að verðbólgan í efnahagsóstjórninni sem þá var át upp húsnæðislánin ykkar og næsta kynslóð á eftir borgaði brúsann með okurvöxtum og verðtryggingunni góðu sem þið siðblindir mennirnir í brúnni sjáið ekki lengur sem vágest í íslensku samfélagi, heldur hjálpartæki til að rétta þeim sem finnst gaman að raka saman peningum meiri vexti undir dulnefni. Verðtrygging er eitur fyrir íslenskt samfélag og hana verður að afnema strax en það er eins með hana og okurvextina, það er enginn vandi að afnema þá ef einhver væri viljinn. Ein tilvitnun enn. Skuldir munu ekki hverfa við að taka upp evru. Ákvæði um vexti og verðtryggingu munu standa. Bankarnir munu ekki una því að skuldir rýrni við gjaldmiðilsbreytingu. Tilvitnun lýkur. Ákvæði um vexti og verðtryggingu munu standa eins lengi og stjórnvöld gefa bönkunum ótakmarkað veiðileyfi á almenning. Sérðu fyrir þér bónda sem á kú sem mjólkar og mjólkar. Heldur þú að hann hætti að mjólka kúna „bara af því bara“? Kristinn nefnir líka að laun muni lækka til samræmis við evrulöndin og vitnar enn einu sinni í heimildir, svo gamlar að aðeins á að vera hægt að lesa í gegnum gler á safni. Trúlega eftir síðustu gengislækkun sem varð vegna stórkostlegra gjaldmiðilskaupa bankanna, eru laun áþekk í dag í þessari viðmiðun. En svo minnist karlinn líka á vexti en þar verður ekki samræmi við evrulöndin eins og með launin, alls ekki. Af hverju skilur enginn og síst hann sjálfur? Og svo vogar maðurinn sér að færa þau rök fyrir launalækkuninni sem er samkeppnishæfni fyrirtækja. Er ekki jafn-mikilvægt að vextir séu þeir sömu báðum megin líka og rökin eru samkeppnishæfni fyrirtækja.

Ein spurning þessu tengd. Af hverju þurfa íslenskir bankar 15-20% vaxtatekjur á meðan bankarnir í nágannalöndum okkar geta rekið sig með 5-10% vöxtum. Eru íslenskir bankastjórar aular?

Og af því að ég minntist á Pétur þá er með ólíkindum að bera á borð fyrir okkur að við landsmenn skulum fagna vegna þeirrar miklu eignamyndunar sem orðið hefur á fasteignum okkar. Pétur, okkur er alveg sama hvaða verðmiði er á heimilunum okkar, það eina sem gerist er að við verðum að borga hærri fasteignaskatta og hærri aukavexti, öðru nafni verðbætur. En þú ert meistari í að sannfæra sjálfan þig um að almenningur hafi það gott og á meðan er ekki hægt að ætlast til að þú vinnir í okkar málum.

Að lokum. Við Íslendingar erum fífl í ykkar augum og það er hægt að bera hvað sem er á borð fyrir okkur enda eðlilegt, ekkert heilvita fólk lætur fara svona með sig eins og við gerum.

Höfundur er bifreiðasali.

Höf.: Magnús Vignir Árnason