Jóni og Gunnu svíður vísareikningurinn þar sem þau kusu að ferðast til eldri Evrópusambandslanda í sumarfríinu. Þau hafa átt einbýlishús í fjölda ára og hafa reglulega reiknað út hvað þau myndu græða seldu þau húsið sitt í uppsveiflunni.

Jóni og Gunnu svíður vísareikningurinn þar sem þau kusu að ferðast til eldri Evrópusambandslanda í sumarfríinu.

Þau hafa átt einbýlishús í fjölda ára og hafa reglulega reiknað út hvað þau myndu græða seldu þau húsið sitt í uppsveiflunni. Nú þegar húsnæðisverðið lækkar minnkar ímyndaði gróðinn, en þau eru enn í plús í hugarleikfiminni, sem skiptir þó ekki máli, því þau ætluðu ekki að selja. Þau hafa hingað til aðeins kynnst kreppunni í hærra bensínverði, keyra samt jeppann enn, og hærri afborgunum af húsnæðisláninu sínu, sem þó eru engar óskaplegar enda lánið viðráðanlegt. Þrátt fyrir að matarverðið hafi hækkað hér heima vegna gengishrunsins, hafa þau ekki hugsað mikið út í það enda hefur verðvitundin ekki verið sterk til þessa. Þau hafa hins vegar alltaf trúað því að matarkarfan væri margfalt dýrari hér heima en þar ytra. Þeim líður ekki þannig eftir ferðalagið.

Þeim var heldur brugðið þegar þau bókuðu hótelherbergi á Ítalíu gegnum netið þar sem verðið sveiflaðist um þúsundkalla á milli daga, þrátt fyrir að það stæði í stað í evrum talið. Þegar út var komið fékkst evran fyrir tæpa 121 krónu. Hálfum mánuði síðar var hún á rétt rúmar 124 krónur. Hún sveiflaðist frá rúmum 119 krónum og upp í tæpar 126 krónur á tímabilinu.

Á ferð sinni um Ítalíu og strandir Frakklands greiddu þau sjaldnast minna en 2,5 evrur eða um 310 krónur fyrir cappuccino á kaffihúsum. Þrjár evrur eða um 375 krónur fyrir Magnum-ísinn í vegasjoppunum og 1,8 til 2,5 evrur eða um 225 til 313 krónur fyrir hálfan lítra af kók og pepsi, misjafnt eftir dögum og stöðum. Lítrinn af bensíni ekki undir 1,60 eða um 198 krónur og því um 20 krónum dýrari en hér og algengt verð á dísil 1,54 á lítrann eða um 191 króna, sem er svipað verð. Fötin keyptu þau á sumarútsölunum. Uppáhaldsskyrturnar, sem kostuðu það sama hjá verslunarkeðjunni á Spáni árinu áður eða 59 evrur, nú með fimmtíu prósenta afslætti á Ítalíu og því á 29,5 evrur. En sparnaðurinn nam engum helmingi, heldur fjórðungi. Skyrtan kostaði 4870 í fyrra en 3700 nú.

Þeim hjónakornum þykir ekki lengur vænt um krónuna sína. Þau vildu heldur vera í sporum erlendra ferðamanna hér sem versla nú sem aldrei fyrr. Þannig var það hjá þeim í fyrra og þau sakna þess.