Eftir Sindra Sverrisson sindris@mbl.is LEIKUR Hauka og Fylkis á Ásvöllum í gær, í 8 liða úrslitum VISA-bikars karla í knattspyrnu, var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Eftir Sindra Sverrisson

sindris@mbl.is

LEIKUR Hauka og Fylkis á Ásvöllum í gær, í 8 liða úrslitum VISA-bikars karla í knattspyrnu, var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Mýmörg færi litu dagsins ljós þrátt fyrir að mörkin hafi látið á sér standa og eftir markalausar 90 mínútur varð að grípa til framlengingar.

Þar reyndist Kjartan Ágúst Breiðdal hetja Fylkis þegar hann kom knettinum í markið eftir sendingu nafna síns, Kjartans Andra Baldvinssonar, og tryggði Fylki 1:0 sigur. Fylkismenn eru því komnir í undanúrslit annað árið í röð.

„Við vissum allan tímann að þetta yrði barátta frá fyrstu mínútu enda eru Haukarnir með hörkulið. Þeir náðu að ógna okkur svolítið í fyrri hálfleik en við komum af miklu meiri krafti inn í seinni hálfleikinn og vorum óheppnir að skora ekki. Það var ekkert vanmat hjá okkur heldur sáum við hvað vantaði upp á hjá okkur í fyrri hálfleik og bættum bara úr því í þeim seinni,“ sagði markaskorarinn Kjartan Ágúst, og orð hans má til sanns vegar færa því Haukar náðu nokkrum frábærum skyndisóknum í fyrri hálfleik sem þeir hefðu betur nýtt. Þar var markahæsti maður 1. deildar, Denis Curic, jafnan á ferðinni og honum tókst með hraða sínum að komast í nokkur úrvalsfæri einn á móti markverði án þess þó að skora.

Fylkismenn mættu hins vegar mun einbeittari til seinni hálfleiks og réðu lögum og lofum lengst af. Mörkin létu hins vegar á sér standa allt þar til Kjartan Ágúst skoraði loks í framlengingunni. Gott mark og ekki voru síðri breikdanstaktarnir sem hann sýndi í kjölfarið.

„Það er alltaf gott að skora en aðalmálið er náttúrulega að liðið vinni. Þetta fagn var nú bara eitthvað djók á æfingu í gær og Þórir [Hannesson] lofaði nú að gefa mér kippu fyrir að gera þetta,“ sagði Kjartan Ágúst.

Haukar 0 Fylkir 1

Ásvellir, bikarkeppni KSÍ, VISA-bikar karla, 8 liða úrslit, fimmtudaginn 24. júlí 2008.

Mark Fylkis : Kjartan Ágúst Breiðdal 115.

Markskot

: Haukar 11 (6) – Fylkir 13 (6).

Horn : Haukar 7 – Fylkir 9.

Rangstöður : Haukar 3 – Fylkir 6.

Skilyrði : Smá gjóla en þurrt. Völlurinn úr gervigrasi.

Lið Hauka : (4-5-1) Amir Mehica – Philip Fritschmann (Jónas Bjarnason 46.), Óli Jón Kristinsson, Þórhallur Dan Jóhannsson, Úlfar Hrafn Pálsson – Ásgeir Þór Ingólfsson (Hilmar Rafn Emilsson 88.), Goran Lukic, Hilmar Trausti Arnarsson, Marco Kirsch, Edilon Hreinsson (Hilmar Geir Eiðsson 65.) – Denis Curic.

Gul spjöld : Philip Fritschmann 33. (fyrir brot).

Rauð spjöld : Enginn.

Lið Fylkis : (4-4-2) Fjalar Þorgeirsson – Þórir Hannesson, Kristján Valdimarsson, Ólafur Ingi Stígsson, Víðir Leifsson (Andrés Már Jóhannesson 79.) – Halldór Hilmisson, Valur Fannar Gíslason, Ian Jeffs, Kjartan Ágúst Breiðdal – Allan Dyring (Kjartan Andri Baldvinsson 84.), Jóhann Þórhallsson (Haukur Ingi Guðnason 84.).

Gul spjöld : Kjartan Ágúst Breiðdal 42. (fyrir brot), Ólafur Ingi Stígsson 68. (fyrir brot).

Rauð spjöld : Enginn.

Dómari : Kristinn Jakobsson, KR.

Aðstoðardómarar : Jóhann Gunnar Guðmundsson og Jóhann Gunnarsson.

Áhorfendur : Um 600.

*Haukar jöfnuðu sinn besta árangur í bikarkeppninni í ár en þetta er í þriðja sinn sem þeir komast í átta liða úrslit keppninnar Þeir gerðu það fyrst 1972 og aftur 2007.