SÉRSTAKIR tónleikar verða í kvöld kl. 21 á Organ á vegum karlahóps femínistafélagsins og Jafningjafræðslunnar. Markmiðið með tónleikunum er að vekja athygli á alvarleika nauðgana og að hvetja karlmenn til að taka ábyrgan þátt í umræðunni.
Tækifærið verður nýtt og lögð áhersla á að verslunarmannahelgin eigi að vera vettvangur skemmtunar og gleði og því var hóað í nokkrar skemmtilegar og glaðar sveitir sem kynnu að vekja til umhugsunar.
Böndin sem um ræðir eru Æla, Arkir, Blúsbandið Kettir, Jan Mayen, Morðingjarnir, My Summer As A Salvation Soldier, Naflakusk, Poetrix, Tríó Magnúsar Tryggvasonar og Vicky Pollard.
Gleði og boðskapur
En mun boðskapurinn nokkuð týnast í spilagleðinni? „Nei, það held ég ekki. Við verðum með stuttar kynningar á milli atriða og hugmyndin er að púsla saman smá fróðleik og segja frá því sem við höfum lent í og hverjar okkar áherslur eru,“ segir Hjálmar G. Sigmarsson, ráðskona Karlahópsins, og bætir við: „Við ætlum ekki að lesa yfir fólki en hugmyndin er að nota tækifærið og planta litlum fræjum.“Það er frítt inn á tónleikana en öll frjáls framlög renna til NEI-átaksins. Átakið „Karlmenn segja NEI við nauðgunum!“ verður kynnt og bæklingum, límmiðum og barmmerkjum verður dreift. Þá má kaupa nýja NEI-boli á staðnum.
Þá verður hópurinn einnig virkur um verslunarmannahelgina eins og undanfarin ár. „Við verðum virk í Reykjavík, Akureyri og í Eyjum þar sem við reynum að vera eins sýnileg og við getum,“ segir Hjálmar sem segir það skemmtilegasta við þetta starf að hitta fólk og spjalla um þessi mál – og það sé líklega árangursríkast líka.