Eftir Sindra Sverrisson sindris@24stundir.is Ísland sendir fimm keppendur á Ólympíumót fatlaðra í Peking í september. Reynslumesti keppandinn er ekki gamall, eða tæplega 26 ára, og heitir Jón Oddur Halldórsson.

Eftir Sindra Sverrisson

sindris@24stundir.is

Ísland sendir fimm keppendur á Ólympíumót fatlaðra í Peking í september. Reynslumesti keppandinn er ekki gamall, eða tæplega 26 ára, og heitir Jón Oddur Halldórsson. Hann mun keppa í 100 metra hlaupi og freista þess að ná svipuðum árangri og í Aþenu árið 2004 þegar hann vann til silfurverðlauna í bæði 100 og 200 metra hlaupi.

„Ekki útilokað að ég fari á pall“

„Ég er búinn að æfa þokkalega vel undir leiðsögn landsliðsþjálfara míns, Kára Jónssonar, og það hefur gengið ágætlega. Ég mun gera mitt besta en á svolítið erfitt með að segja til um hvað ég næ langt núna. Ég ætla bara að hlaupa eins hratt og ég get og sjá hvað kemur út úr því. Það er ekkert útilokað að ég fari á pall en það er aldrei hægt að vera öruggur um neitt á svona stórmóti eins og Ólympíuleikunum,“ sagði Jón Oddur. Undirbúningur fyrir mótið stendur nú sem hæst og segir Jón Oddur stemninguna fara stigvaxandi í hópnum.

„Við erum mjög samheldinn og skemmtilegur hópur og þetta leggst bara nokkuð vel í mig. Við erum búin að fá mikinn tíma núna til að kynnast hvert öðru fyrir keppnina og höfum verið í sameiginlegum æfingabúðum á Laugarvatni sem hafa gengið vel, og við munum halda áfram að hittast og æfa fram að mótinu. Það er allt gert til að þjappa hópnum saman og búa til eina liðsheild og þetta stefnir allt í rétta átt,“ sagði Jón Oddur.

Hann keppti eins og áður segir í bæði 100 og 200 metra hlaupi í Aþenu fyrir fjórum árum en verður að láta 100 metra hlaupið nægja að þessu sinni.

Martraðir um mauraþúfu

„Ég keppi í flokki T35, sem er flokkur þeirra sem eru spastískir í öllum útlimum en þó meira í höndum en fótum. Af einhverjum ástæðum sem mér er ekki kunnugt um er ekki keppt í 200 metra hlaupi í þeim flokki að þessu sinni,“ sagði Jón Oddur, sem hlakkar til Kínaferðarinnar þó honum lítist kannski ekkert allt of vel á mannmergðina sem þar er.

„Þetta verður örugglega bara mjög gaman. Ég þarf nú að fara að læra kínverskuna betur en ég veit þó að „níhá“ þýðir „góðan daginn“ og „Bingdá“ þýðir Ísland. Ég fæ alveg martraðir á nóttunni þar sem maður sér sjálfan sig fyrir sér sem einn maur í mauraþúfu og maður á örugglega bara eftir að finna fyrir víðáttubrjálæði,“ sagði Jón Oddur og hló dátt.

„Veit vel um hvað þetta snýst“

Hann er þó hvergi banginn enda reynslunni ríkari eftir Ólympíumótið í Aþenu fyrir fjórum árum, þar sem hann náði eins og áður segir frábærum árangri, sem og fleiri alþjóðleg mót sem hann hefur keppt á í gegn um tíðina.

„Þetta verður kannski ekki alveg eins og að fara til Akureyrar en maður hefur farið í gegnum allan pakkann sem fylgir svona stórmótum þannig að maður veit vel um hvað þetta snýst,“ sagði Jón Oddur að lokum. Hann mun þjóta af stað á hlaupabrautinni í Peking 12. september.

Í hnotskurn
Persónulegt met Jóns Odds í 100 metra hlaupi er 13,30 sekúndur. Metið setti Jón Oddur þegar hann vann til silfurverðlauna á Ólympíumótinu í Aþenu 2004. Jón Oddur hefur tvisvar verið kjörinn íþróttamaður ársins af Íþróttasambandi fatlaðra, fyrst árið 2003 og svo aftur 2006. Heimahagarnir eru Jóni Oddi kærir og þó að hann æfi í Reykjavík keppir hann ætíð undir merkjum Reynis frá Hellissandi og Víkings frá Ólafsvík, enda segir Jón Oddur Snæfellsnesið vera sinn uppáhaldsstað.